Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lýsir eftir þingmönnum Norðausturkjördæmis

04.12.2019 - 13:50
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Fólk í ferðaþjónustu á Norðurlandi er ósátt við aðgerðarleysi stjórnvalda í flugvallarmálum. Kallað er eftir uppbyggingu Akureyrarflugvallar.

Mikið hagsmunamál

Uppbygging Akureyrarflugvallar er mikið hagsmunamál fyrir fólk í ferðaþjónustu og íbúa á Norðurlandi. Í nýútkominni samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu vallarins á næstu árum. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, eigandi Circle Air og Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, voru á Morgunvaktinni á Rás 1. 

„Þetta er í ríkisstjórnarsáttmálanum að það eigi að opna aðra gátt inn í landið og maður hélt nú að það ætti að fylgja einhverjar gjörðir þeim orðum en svo virðist því miður ekki ekki. En því miður virðast þingmenn kjördæmisins ekki bara verða orðlausir heldur mállausir, það hefur ekki heyrst eitt orð frá þingmönnum kjördæmissins, nema Njáli Trausta. Hann er sá eini sem heyrir eitthvað í um þessi mál. Ég lýsi bara eftir hinum. Hvar eruð þið? Hvaða skoðun hafið þið á þessu máli," segir Steingrímur.

 Nú erum við með reynda þingmenn í kjördæminu. Sigmund Davíð, Kristján Þór, Steingrím J, það hefur lítið heyrst frá þessum mönnum um þetta mál, er það ykkar tilfinning?

 „Bara ekkert, ég hef ekki heyrt frá einum einasta af þessum mönnum."

Mögulegt í Færeyjum

Þorvaldur tekur í sama streng og Steingrímur. „Upptökusvæði flugvallarins er um 50 þúsund manns sem er svona svipað og Færeyjar og einhverra hluta vegna geta þeir haldið úti fjórum til ellefu millilandaflugum á dag."