Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lykilatriði að veiðarnar verði ekki stöðvaðar

13.04.2018 - 13:40
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda tekur undir áhyggjur af því að fyrirhugaðar breytingar á strandveiðum geti bitnað á landsvæðum þar sem meginveiðin er seinni hluta sumars. Til að svo verði ekki þurfi að fella út ákvæði um að stöðva megi veiðarnar, fari þær yfir leyfilegan heildarafla.

Í frumvarpi um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða er lagt til að horfið verði frá því að skipta heildarafla strandveiða niður á fjögur veiðisvæði. Þess í stað verði sameiginlegur pottur fyrir allt landið og hver bátur megi veiða 12 daga í mánuði, 48 daga samtals. Fiskistofa geti síðan stöðvað veiðarnar ef heildarafli fari umfram leyfilegt magn.

Verður að vera skýrt að veiðarnar verði ekki stöðvaðar

Þessu hafa fjölmargir mótmælt. Aðallega þó á norðan- og austanverðu landinu þar sem fiskur gengur seinna á miðin. Þeir óttast að kvótinn verði einfaldlega búinn þegar fiskurinn verði kominn þangað. „Við höfum alveg skilning á þessu,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. „En meginmarkmið breytinganna er það að búa betur að strandveiðunum, með því að menn geti valið þessa 12 daga í hverjum einasta mánuði. En það verður algerlega að vera skýrt í frumvarpinu, og það sem Alþingi kemur til með að afgreiða, að það sé ekki þessi heimild Fiskistofu til að stöðva veiðarnar.“  

Engin stórhætta þó veitt verði umfram heimildir

Og það þurfi ekki að hafa í för með sér að veitt verði meira en leyfilegt er. Veiðiheimildir til strandveiða verði auknar í ár og því eigi aflinn að duga til veiða á öllum svæðum. Og þó menn fari fram yfir heimildir sé engin stórhætta á ferðinni. „Það er algerlega í lagi þegar við búum við mjög stóran þorskstofn, þann stærsta sem hefur mælst. Og þó það verði farið einhver örfá tonn framyfir, þá skiptir það bara engu máli,“ segir Örn. Hugsanlega þurfi sérstakar viðræður um að fá meiri aflaheimildir inn í strandveiðikerfið. „Það gæti gerst, já. Og það á þá bara að viðurkenna það.“