Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Lýður í átta mánaða fangelsi

13.03.2014 - 16:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Exista var í dag dæmdur í átta mánaða fangelsi í Hæstarétti. Fimm mánuðir refsingarinnar eru skilorðsbundnir.

Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður og fyrrverandi stjórnarmaður í Kaupþingi var dæmdur í sex mánaða fangelsi. Þar af eru þrír mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára. Bjarnfreður er einnig sviptur réttindum til að vera héraðsdómslögmaður í eitt ár.

Lýður var dæmdur fyrir brot á hlutafjárlögum í desember 2008. Hlutafé Exista var þá aukið um 50 milljarða króna en aðeins einn milljarður greiddur fyrir. Bjarnfreður var dæmdur fyrir að hafa skýrt á villandi hátt frá hlutafjáraukningunni í Exista. Héraðsdómur sýknaði Bjarnfreð af þessari ákæru. Hæstiréttur sneri þeirri niðurstöðu við. Héraðsdómur sýknaði einnig Lýð af því að hafa komið að því að veita villandi upplýsingar um hlutafjáraukninguna. Hæstiréttur staðfesti þá sýknu.

Hæstiréttur þyngir dóm héraðsdóms

Lýður var dæmdur til að greiða tvær milljónir króna í sekt í Héraðsdómi Reykjavíkur. Honum var gert að greiða tvær milljónir króna í sekt, í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. maí í fyrra. Hæstiréttur þyngdi þann dóm verulega. Þá voru Lýður og Bjarnfreður Ólafsson voru hins vegar sýknaðir af ákæru um að hafa vísvitandi greint rangt frá hækkun hlutafjár í Exista.

Í dómi Hæstaréttar í dag segir: „Þegar litið er til atvika málsins eins og þeim er lýst hér að framan, en einkum þess að brot ákærðu beggja varða verulegar fjárhæðir og voru til þess fallin að hindra eða fresta hvers kyns réttmætum aðgerðum skuldheimtumanna Exista hf., hafa ákærðu báðir unnið sér til fangelsisrefsingar. “

Milljóna lögfræðikostnaður

Lýður þarf að greiða helming af launum Gests Jónssonar, verjanda síns, fyrir héraðsdómi - tæpar ellefu milljónir króna. Hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði. Lýður þarf að greiða - öll málsvarnarlaun Gests fyrir Hæstarétti - rúma milljón.
Bjarnfreður greiðir helminginn af launum Þorsteins Einarssonar, verjanda síns í héraði - þremur milljónum króna. Og öll laun hans fyrir Hæstarétti - rúma milljón.
Alls greiðir Lýður því nær 6,5 milljónir króna í málsvarnarlaun. Bjarnfreður greiðir alls 2,5 milljónir.

Sakaður um blekkingar

Sérstakur saksóknari gaf út ákæru á hendur Lýði 19. september 2012. Þar var Lýði og lögmanninum gefið að sök að hafa beitt blekkingum til að tryggja yfirráð yfir Exista. Lýður hafi brotið gegn hlutafélagalögum. aðeins hafi verið greiddur einn milljarður króna fyrri nýtt fimmtíu milljarða króna hlutafé í félaginu, í lok árs 2008. Milljarðurinn sem greiddur var kom í raun frá Lýsingu hf - félagi í eigu Exista - í formi láns. Samkvæmt ákærunni rann upphæðin aldrei inn í rekstur Exista. Í ákærunni segir að Bjarnfreður Ólafsson héraðsdómslögmaður hafi sent ríkisskattstjóra og Verðbréfaskráningu villandi tilkynningu um að hlutafé Exista hafi verið aukið um 50 milljarða.

Nýja Kaupþing krafðist greiðslu


Atburðirnir urðu nokkrum mánuðum eftir hrun íslensku bankanna. Fáum dögum áður en tilkynnt var um hlutafjáraukninguna, hafði nýja Kaupþing krafist þess að greitt yrði inn á lán sem félagið Bakkavör Holding hafði hjá bankanum, eða frekari tryggingar veittar fyrir láninu. Bakkavör Holding átti 45% í Exista og var í eigu bræðranna Lýðs og Ágústar Guðmundsssona. Ef frekari tryggingar fengjust ekki, eða greiðsla inn á lánið, myndi bankinn leysa til sín hlutabréf í Exista sem hann hafði að veði. Í ákæru sérstaks saksóknara segir að með fléttunni hafi hlutur annarra eigenda í Exista verið þynntur út. Lýður hafi með henni tryggt sér áframhaldandi yfirráð yfir Exista.