Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lúxus-markaðsfærsla með Elton John

01.03.2019 - 19:06
Mynd:  / 
Það eru hliðstæðar aðstæður á fasteignamarkaðnum víða um heim, alltof mikið framboð af lúxusíbúðum í stórborgum. Það græðir enginn á hálftómum draugaturnum, sama hvort er í miðborg London eða Reykjavíkur. Lúxusíbúðir eru ekki seldar bara með auglýsingum. Fyrir nokkrum árum var verið að markaðsfæra lúxusíbúðir á vegum fjárfesta frá Malæsíu í gömlu kolaveri í Battersea, í London. Það dugði ekkert minna en að fá Elton John á kynningarsamkomu þar sem hann spilaði og söng af hjartanslist.

Þarna eru og verða nokkur hundruð lúxusíbúðir í bland við búðir og veitingastaði. Framkvæmdum hefur seinkað, kostnaður rokið upp og það gengur upp og ofan að selja íbúðirnar.

Gler-sundlaug í hæstu háhýsahæðum

Þegar kom að næsta stóra lúxusíbúðaverkefni, í kringum nýja bandaríska sendiráðið í Vauxhall, skammt frá Battersea, þurfti meira en bara Elton John í eitt kvöld. Þarna er verið að heilt háhýsahverfi með lúxusíbúðum. Á einum stað er gler-sundlaug sem tengir tvö háhýsi saman, tugi metra yfir jörðu; stórbrotið útsýni úr glerlauginni en ekki fyrir lofthrædda. Og svo eru þarna þakgarðar sem allir íbúar hafa aðgang að, auk heilsurækta, kvikmyndasala og samkomuaðstöðu af öllu tagi.

London: nóg af lúxusíbúðum en kaupendur vantar

Í viðbót eru háhýsi með lúxusíbúðum víða í byggingu í eða við miðborgina í London, byggt fyrir alþjóðlega fjárfesta, ekki bara heimamenn. Nú er staðan sú að það er nóg af lúxusíbúðum en það vantar kaupendur.

Helsta skýringin: of mikið byggt af lúxusíbúðum

Og skýringin er ekki aðeins Brexit, ekki aðeins hækkun stimpilgjalda. Ekki aðeins að íbúðarnir eru vissulega dýrt innréttaðar en um leið er yfirbragðið alls staðar það sama og því fátt eftirsóknarverðara en annað. Skýringin er einfaldlega að sama hvernig á það er litið þá er framboðið miklu meir en eftirspurnin hefur nokkurn tíma verið.

Stökkbreyttar lúxusíbúðir og gefins bílar

Framkvæmdaaðilar þessara bygginga brjóta nú heilann um hvernig eigi að fara með skýjakljúfa fulla af óseldum íbúðum. Það er ýmislegt til ráða. Stærri íbúðum er skipt niður í minni íbúðir. Sumum íbúðum er breytt í skrifstofur. Svo má reyna verðlækkanir, dæmi um helmings lækkun. Aðrir taka íbúðirnar af markaði, vilja heldur bíða og sjá til en lækka verðið. Í sumum tilfellum er bætt við gylliboðum eins og ókeypis húsgögnum, jafnvel ókeypis bíl. Það má margt reyna.

Botnfrosinn lúxusíbúðamarkaður jafnt í London sem Reykjavík

Það er auðvelt að skilja óskhyggju verktakanna. Meiri hagnaður ef hægt er að byggja og selja íbúðir með háu fermetraverði fyrir alþjóðlega auðmenn en lágu eða lægra fermetraverði fyrir venjulegt fólk.

Hið athyglisverða er að þetta offramboð á lúxusíbúðum er ekki einkavandi verktaka hér í London. Þetta er að gerast makalaust víða um heim. Líka í Reykjavík. Þar er offramboð á dýrum íbúðum, sá markaður frosinn eins og bent var á nýlega í grein fréttaveitunnar Bloomberg um lúxusíbúðamarkaðinn í Reykjavík.

Óseldar lúxusíbúðir stærra vandamál í Reykjavík en London

Markaðurinn í Reykjavík er ekki eins sveigjanlegur og í milljónaborginni London, offramboð á lúxus-íbúðum er því meiri vandi í Reykjavík en í London. Og já, lúxusíbúðir í Reykjavík seljast einfaldlega ekki um þessar mundir, samkvæmt heimildamönnum Spegilsins. Það er líka einfalt að bera saman fasteignir á jafn litlum markaði og Reykjavík. Auðvelt að sjá að það er kannski ekki mikill gæðamunur á íbúð í miðbæ Reykjavíkur og svo utan miðbæjarins, jafnvel þó fermetraverðið sé allt að tvöfalt hærra í miðborginni. Og bílastæði eru miðbæjarvandi.

Ábyrgð bæjaryfirvalda

Það er umhugsunarvert hvað hafi ýtt undir byggingu lúxusíbúða í Reykjavík langt umfram eftirspurn. Það eru engar byggingar byggðar án leyfis bæjaryfirvalda. Það er því líka á ábyrgð þeirra að huga að hvað markaðurinn leyfi og þoli. Hálftómir draugaturnar skaffa bæjarfélagi hvorki tekjur né líf og fjör sem dregur að aðra starfsemi og skapar þannig atvinnutækifæri. Það gildir það sama hvort sem er í Reykjavík eða London, bæjaryfirvöld verða að hugsa vel sinn gang þegar kemur að því að veita byggingarleyfi og þá skilyrðin sem fylgja.

Hvað segja óseldar lúxusíbúðir um heilsufar bankanna?

Kannski gætir áhrifa í Reykjavík af útleiguvæðingunni í ferðaþjónustunni, í gegnum airbnb og hliðstæðar vefsíður. Svo er nokkuð ljóst að bæði hér í London og á Íslandi hafa bankar verið til í að lána í þessar lúxusbyggingar. Sem er umhugsunarefni út af fyrir sig, ekki síst þegar hægir á vexti á Íslandi. Spurning hversu íslenska bankakerfið er vel í stakk búið að fara inn í samdráttartíma eftir hagvöxtinn undanfarin ár.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir