Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Lúsmý og aðrir gestir

06.07.2015 - 16:13
Mynd: Erling Ólafsson / Náttúrufræðistofnun Íslands
Fréttir af þeim framandi gesti, lúsmýinu sem herjaði á Íslendinga í síðustu viku, urðu Stefáni Gíslasyni tilefni til hugleiðinga um viljandi og óviljandi innflutning lífvera. Hann flutti pistil um þessa óvæntu gesti í Samfélaginu.

Hvernig barst lúsmý til landsins?

Fyrir rúmri viku hafði eiginlega enginn heyrt minnst á lúsmý en nú eru þessar smávöxnu flugur allt í einu orðnar eitt helsta umræðuefnið manna á meðal. Enginn virðist vita hvaðan flugurnar komu, en þar sem lúsmý hefur ekki gert vart við sig á Íslandi áður hlýtur að vera óhætt að slá því föstu, hvað sem öðru líður, að þetta sé innflutt tegund.

Það veit sem sagt enginn hvernig lúsmýið barst til landsins. Það birtist bara hér einn daginn öllum að óvörum. Þarna er eiginlega um tvo möguleika að ræða. Annar möguleikinn er sá að flugurnar hafi komið hingað með náttúrulegum hætti, t.d. með veðri og vindum, eða jafnvel fuglum. Hinn möguleikinn er að þær hafi komið hingað af mannavöldum. Ef það er tilfellið er aftur um tvo möguleika að ræða. Annað hvort hafa menn flutt þær með sér viljandi eða óvart. Reyndar er afskaplega ólíklegt að einhver hafi flutt þessar flugur með sér til að hafa þær fyrir gæludýr eða í einhverjum öðrum meðvituðum tilgangi, þannig að ef þær hafa borist hingað af mannavöldum hlýtur það að hafa verið óvart.

Það eru sem sagt allar líkur á að lúsmý sé það sem kallað er framandi tegund, þ.e.a.s. lífvera sem hefur fyrir atbeina manna, viljandi eða óvart, borist út fyrir náttúrulegt útbreiðslusvæði sitt, sem er líklega meginland Evrópu í þessu tilviki. Líklegast er að tegundin hafi komist hingað á lirfustigi. Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar kemur fram að uppeldisstöðvar lúsmýslirfa geti m.a. verið í vatni eða í rökum jarðvegi, sem gerir það að verkum að böndin hljóta að berast að innfluttum jarðvegi sem fyrsta möguleika, eða jafnvel kjölvatni, án þess þó að nokkru sé slegið föstu á þessu stigi.

Stutt eða löng heimsókn?

Rétt eins og enginn veit hvernig lúsmýið barst til landsins, veit heldur enginn hvort það er bara hér í stuttri heimsókn eða hvort það er komið til að vera. Reyndar er óhætt að slá því föstu að lúsmýið fari ekki aftur heim til sín, hvaðan sem það annars kom. Hins vegar getur vel verið að það þoli ekki vistina á Íslandi til lengdar og hverfi jafn skyndilega og það birtist. Í versta falli, svo ég leyfi mér nú að blanda tilfinningaþrungnum orðum inn í þessa umræðu, gæti lúsmýið orðið að því sem kallað er ágeng tegund, þ.e.a.s. tegund sem dreifir sér hratt og mikið og er líkleg til að valda tjóni í heilsufarslegu, efnahagslegu eða umhverfislegu tilliti, eins og ágengar tegundir eru yfirleitt skilgreindar.

Hver sem framtíð lúsmýsins verður, hlýtur óvænt hingaðkoma þess að minna okkur á þá hættu sem getur stafað af framandi tegundum og um leið á mikilvægi þess að fara gætilega í innflutningi nýrra tegunda sem við höfum ekki hugmynd um hvernig muni standa sig í íslensku lífríki til lengri tíma, óháð því hvort innflutningurinn á sér stað viljandi eða óvart.

Verndað umhverfi

Við búum á eyju. Það hefur auðvitað sína kosti og galla eins og annað í lífinu, m.a. þegar talið berst að framandi tegundum. Einn af kostunum er sá að á eyju er tiltölulega auðvelt að verjast innflutningi nýrra tegunda af mannavöldum, þ.e.a.s. ef eyjaskeggjar og þeir sem stjórna eyjunni gera sér grein fyrir hvað getur verið í húfi. Einn af göllunum er hins vegar sá að nýjar tegundir geta gert tiltölulega mikinn usla í til þess að gera vernduðu umhverfi.

Líklega skiptast Íslendingar dálítið í tvær fylkingar í afstöðu sinni til framandi tegunda. Önnur fylkingin vill fara að öllu með gát, enda ljóst að framandi tegundir geta í versta falli útrýmt mikilvægum hluta þess lífríkis sem fyrir er, máð út einkenni þess og gert það fábreyttara. Hin fylkingin gerir lítinn greinarmun á framandi tegundum sem menn flytja til landsins og tegundum sem komast hingað með náttúrulegum hætti. Þessi fylking sakar fyrrnefndu fylkinguna jafnvel um líffræðilegan fasisma. Nýjum tegundum beri að taka fagnandi, sérstaklega ef einstaklingar tegundarinnar séu fallegir eða líklegir til að gefa af sér einhverjar tekjur til skamms tíma litið. Þessar fylkingar takast stundum á og þá er ágreiningsefnið oftar en ekki Alaskalúpína. Önnur fylkingin bendir á að þetta sé falleg planta sem geri jarðveginn næringarríkari fyrir aðrar plöntur og búi þannig í haginn fyrir meiri gróður í framtíðinni. Hin fylkingin segir á móti að þetta sé framandi tegund sem útrými víða þeim gróðri sem hefur einkennt Ísland um aldir, svo sem berjalyngi, geldingahnappi og holtasóley, sem sé vel að merkja þjóðarblóm Íslendinga. Alaskalúpína er einmitt sú framandi ágenga tegund sem flestir Íslendingar þekkja og þar er skógarkerfill væntanlega í öðru sæti.

Því fer fjarri að Alaskalúpína og skógarkerfill séu einu tegundirnar sem numið hafa land hérlendis með viljandi eða óviljandi aðstoð manna. Þannig er t.d. talið að sitkalús gæti hafa komið til Íslands með innfluttum jólatrjám og nú velta menn sem sagt vöngum yfir því hvort lúsmý hafi komið hingað með innfluttum jarðvegi. Því er eðlilegt að spurt sé hvort Íslendingar séu kannski einum of kærulausir á þessu sviði. Á lúsmý t.d. eftir að breiðast út um allt land og gera þjóðina viðþolslausa af kláða á hverju sumri það sem eftir er, bara vegna þess að einhver flutti inn jarðveg með lúsmýslirfum?

Af hverju flytjum við inn jarðveg?

Í framhaldi af þessu er eðlilegt að líka sé spurt hvers vegna Íslendingar flytji inn jólatré og jarðveg og taki þar með áhættuna á að einhver óboðin kvikindi fylgi með í kaupunum og gerist ágengar í viðkvæmri náttúru eylandsins Íslands. Á Íslandi er nefnilega til nóg af jólatrjám. Og öfugt við það sem margir halda er líka til nóg af jarðvegi. Íslendingar eru bara ekki alltaf mjög duglegir að nýta þær auðlindir sem þeir eiga og þess vegna henda þeir tugum þúsunda tonna af innlendum jarðvegi á hverju ári og flytja einhvern slatta af jarðvegi inn í staðinn. Með tugum þúsunda tonna af jarðvegi er hér verið að vísa til lífræns úrgangs af ýmsu tagi sem Íslendingar grafa í jörðu í stórum stíl í stað þess að breyta honum í jarðveg. Það er út af fyrir sig rannsóknarefni að þjóð sem berst við eyðimerkurmyndun, því að það gera Íslendingar vissulega, skuli urða þúsundir vörubílsfarma af lífrænu efni á hverju ári og þykjast svo vera í vandræðum með jarðveg. Og þessi sama þjóð flytur inn gróðurmold og sitthvað fleira af því tagi frá útlöndum án þess að leiða hugann að því hvaða framandi lífverur geti fylgt með í kaupunum.

Áhættusamt að flytja inn lífverur

Í raun má skipta framandi lífverum á Íslandi í tvo hópa, þ.e.a.s. lífverur sem fluttar hafa verið inn óvart og hins vegar lífverur sem menn hafa flutt inn viljandi til að reyna að bæta það sem fyrir er. Hvort tveggja má flokka undir áhættuhegðun, því að oftar en ekki koma fram einhverjar óvæntar aukaverkanir. Það virkar nefnilega sjaldnast eins og til er ætlast að bæta einhverri lífveru með handafli inn í lífríkið. Aukaverkanirnar geta verið margvíslegar og ófyrirséðar og fyrr en varir er orðið of seint að endurheimta lífríkið sem fyrir var. Við vitum nefnilega minna en við höldum um samspil tegunda í vistkerfinu. Áður en við flytjum inn nýja tegund eða einhverja vöru sem ný tegund gæti ferðast með, er okkur hollt að rifja upp orð indjánans sem sagði: „Maðurinn óf ekki vef lífsins. Hann er bara þráður í þessum vef. Það sem hann gerir vefnum, gerir hann sjálfum sér“.

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður