Svafar var á grásleppuveiðum þegar þáttastjórnendur Samfélagsins náðu af honum tali. Nú er sól, logn og blíða en veiðin mætti þó vera betri, að hans mati.
Lundinn kom til Grímseyjar um þar síðustu helgi og er alltaf fyrr og fyrr á ferðinni. „Hérna áður fyrr var hann líklega að koma svona í kringum 10. apríl en núna erum við farnir að sjá hann alltaf fyrir mánaðamót, oft 27. til 30. mars,“ segir Svafar.
Lundinn er meðal þeirra fuglategunda sem eru í útrýmingarhættu. Frá aldamótum hefur fækkað mikið í lundastofninum hér á landi. Raunin virðist vera önnur við Grímsey því þar hefur lundanum fjölgað síðustu ár og áratugi, að því er Svafar telur. „Þegar ég var ungur maður og þessir gömlu karlar voru að segja manni þá var aldrei lundi hérna vestan af eyjunni í gamla daga. Núna er hann kominn allan hringinn á eyjunni nema bara rétt í kringum hafnarsvæðið. Annars er hann farinn að verpa um allt,“ segir Svafar sem telur að vegna plássleysis sér lundinn farinn að dreifa sér víðar í kringum eyna.