Lund og Dumbledore á leið til landsins

Mynd með færslu
 Mynd:

Lund og Dumbledore á leið til landsins

23.11.2013 - 12:25
Sir Michael Gambon, Stanley Tucci og Sofie Gråbøl eru væntanleg til landsins í byrjun ársins til að leika í bresk/bandarísku sjónvarpsþáttunum Fortitude. Þættirnir eiga að gerast í bæ á heimskautasvæði að vetrarlagi og fara tökur að mestu leyti fram á Reyðarfirði og Eskifirði.

Greint er frá leikurunum á vef Daily Mail.  Sir Michael Gambon lék meðal annars Philip Marlow í sjónvarpsþáttum BBC um spæjarann syngjandi. Frægastur er Sir Gambon þó eflaust fyrir að hlutverk sitt í Harry Potter-myndaflokknum þar sem hann var töframaðurinn Dumbledore í sex myndum.

Dönsku leikkonuna Sofie Gråbøl þekkja íslenskir sjónvarpsáhorfendur vel sem Söruh Lund úr  sjónvarpsþáttunum Forbrydelsen en þeir hafa verið sýndir við miklar vinsældir á RÚV -  hún leikur lögreglustjórann í Fortitude.  

Þriðji leikarinn -  Stanley Tucci - var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Lovely Bones.  Hann hefur einnig leikið í kvikmyndum á borð við The Hunger Games og The Devil Wears Prada.

Fortitude er spennuþáttaröð sem breska sjónvarpsstöðin Sky og bandaríska sjónvarpsstöðin Starz framleiða í sameiningu. Hún gerist í bænum Fortitude á heimskautasvæðinu að vetrarlagi og verða bæði Reyðarfjörður og Eskifjörður notaðir sem tökustaðir auk annarra staða í Fjarðabyggð.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefjast tökur strax í byrjun næsta árs -  janúar eða febrúar. Ytra útliti bæjarfélaganna verður breytt en innitökurnar verða í myndveri á Englandi. Samkvæmt heimildum fréttastofu er ráðgert að tökunum ljúki í júní.

Framleiðslufyrirtækið Pegasus hefur veg og vanda af þessu verkefni hér á landi. Þetta er annað stóra sjónvarpsverkefnið sem fyrirtækið tekur að sér á þessu ári - það sá einnig um tökurnar á Game of Thrones fyrr í sumar.

[email protected]