Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lopapeysan meikar það í útlöndum

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV

Lopapeysan meikar það í útlöndum

09.10.2018 - 20:03

Höfundar

Þrátt fyrir háan aldur fara vinsældir íslensku lopapeysunnar vaxandi. Uppskriftir að lopapeysum seljast eins og heitar lummur í gegnum netið og er stærstur hluti kaupenda erlendis. „Lopinn fyrirgefur allt, þú þarft ekki einu sinni að vera flink að prjóna, hann breiðir yfir öll mistök,“ segir Védís Jónsdóttir lopapeysuhönnuður.

Næstum öll ull af íslensku sauðfé fer til garnframleiðandans Ístex í Mosfellsbæ. Ístex er hlutafélag sem er að stærstum hluta, eða áttíu prósent, í eigu bænda.

„Eigendur þegar ég taldi síðast voru 2.527. Við erum að kaupa 99% af allri íslenskri ull sem er um þúsund tonn  og af því eru svona 750 af hreinni ull sem við getum notað hér og selt sem hrávöru erlendis,“ segir Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdstjóri Ístex hf.

Tvær vélar ganga fram til klukkan tvö á næturnar, þær Dóra og Anna. Þær kemba ullina. Því næst er hún spunnin. Á síðustu tíu árum hefur sala á lopa aukist um 120% ef horft er til magns. 

„Strax eftir hrun var mikil aukning í lopasölu. Sú aukning var föst til 2014, 2015 þegar gengið fór að síga á móti. En samt sem áður er talsverð aukning á ákveðnum svæðum eins og á Norðurlöndunum, í Þýskalandi og í Bandaríkjunum,“ segir Sigurður.

Árlega eru gefur Ístex út prjónabækur og í árslok 2008 var sala prjónabók þess árs um tíma það mikil að hún seldist mest allra bóka og betur en glæpasögur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Á síðustu árum hefur sala á lopapeysuuppskriftum í gegnum netið aukist verulega. Árlega eykst salan um tuttugu og fimm prósent og í fyrra voru seldar lopapeysuuppskriftir fyrir samtals um tvær milljónir króna. 

Védís Jónsdóttir lopapeysuhönnuður segir vinsældir lopapeysunnar skiljanlegar. 

„Þetta er mjög klæðilegt form og það er mjög gaman að prjóna þær vegna þess að þetta er saumlaust. Lopinn fyrirgefur allt, þú þarft ekki einu sinni að vera flink að prjóna, hann breiðir yfir öll mistök,“ segir Védís.

Helmingur af öllum uppskriftum sem seljast þannig er peysan Riddari sem Védís Jónsdóttir hannaði. En hvað þarf peysa að bera til að teljast vera lopapeysa?

„Það er náttúrulega í fyrsta lagi að hún sé úr lopa og svo er það hið hringlaga axlarstykki sem er höfuðeinkenni lopapeysunnar,“ segir Védís.

Bandaríkjamenn kaupa tæplega fjórðung af öllum lopapeysuuppskriftum sem seljast um netið. En fleiri lönd sækja á. 

„Það er mikil aukning t.d. í Svíþjóð og þar er þetta Knit-a-long, þetta samprjón getur maður sagt, sem er mjög vinsælt,“ segir Védís.

Þannig hópast prjónafólk á samfélagsmiðla, skiptist á hugmyndum um litaval í lopapeysuna og deilir myndum af prjónlesinu.

Manni finnst náttúrulega dálítið sérstakt, eins og lopinn er heitur og lopapeysan hlý flík, að þetta sé svona vinsælt víða um heim?

„En lopinn er svo temprandi, hún andar vel og það er bara svo gott að vera í lopanum,“ segir Védís.

En fleira skýrir vinsældir lopans.

„Það er að þetta er náttúrulegt efni. Þetta er ekki plast. Það er þessi mikla samfélagsvitund um hvað er efni sem endurnýtanlegt. Það er verið að nýta allt af sauðkindinni,“ segir Védís.

Hún er að leggja lokahönd á nýja prjónabók. Hún hefur hannað fjöldann allan af peysum en er ekki uppiskroppa með hugmyndir.

„Það er hægt að leika sér endalaust með lopapeysumynstrið,“ segir Védís.

Tengdar fréttir

Hönnun

4 milljarðar í lopapeysusölu

Hönnun

Hafa ekki undan við framleiðslu á lopa

Hönnun

Hlýtt og kalt á prjónunum

Landbúnaðarmál

Aukin sala á ullarvöru tækifæri fyrir bændur