Næstum öll ull af íslensku sauðfé fer til garnframleiðandans Ístex í Mosfellsbæ. Ístex er hlutafélag sem er að stærstum hluta, eða áttíu prósent, í eigu bænda.
„Eigendur þegar ég taldi síðast voru 2.527. Við erum að kaupa 99% af allri íslenskri ull sem er um þúsund tonn og af því eru svona 750 af hreinni ull sem við getum notað hér og selt sem hrávöru erlendis,“ segir Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdstjóri Ístex hf.
Tvær vélar ganga fram til klukkan tvö á næturnar, þær Dóra og Anna. Þær kemba ullina. Því næst er hún spunnin. Á síðustu tíu árum hefur sala á lopa aukist um 120% ef horft er til magns.
„Strax eftir hrun var mikil aukning í lopasölu. Sú aukning var föst til 2014, 2015 þegar gengið fór að síga á móti. En samt sem áður er talsverð aukning á ákveðnum svæðum eins og á Norðurlöndunum, í Þýskalandi og í Bandaríkjunum,“ segir Sigurður.
Árlega eru gefur Ístex út prjónabækur og í árslok 2008 var sala prjónabók þess árs um tíma það mikil að hún seldist mest allra bóka og betur en glæpasögur.