Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Löngu horfin dýrategund náðist á mynd

12.11.2019 - 06:25
Erlent · Asía · Dýralíf · Víetnam
Mynd með færslu
 Mynd: Global Wildlife Conservation
Vísindamenn urðu kampakátir á dögunum þegar þeir skoðuðu myndir úr myndavélum sem komið var fyrir í skóglendi í suðurhluta Víetnam. Á mörgum myndanna gaf að líta dýr sem þeir héldu að væri ekki lengur að finna á víðavangi.

Músadádýrið, sem er raunar hvorki mús né dádýr heldur minnsta hófdýr í heimi, sást á nærri 300 myndum sem teknar voru yfir fimm mánaða tímabil í skóglendinu. Eftir það settu þeir fleiri myndavélar upp á svæðinu til að ná fleiri myndum. Ekki er vitað hversu mörg dádýrin eru í skóginum. Nærri 30 ár eru síðan síðast sást til tegundarinnar, svo vitað sé. 

An Nguyen, vísindamaður og leiðtogi rannsóknarinnar á dýrinu, segist ekki hafa vitað við hverju hann ætti að búast. Hann var því steinhissa og ofsaglöð þegar hann leit á myndirnar úr myndavélunum í skóginum og sá smádýrin. Með því að uppgötva að þau eru enn meðal okkar er fyrsta skrefið í átt að því að passa að það hverfi ekki aftur, hefur Guardian eftir honum.

Greint er frá fundinum í nýjasta hefti náttúruvísindaritsins Nature Ecology and Evolution. Fleiri kalla nú eftir því að gripið verði til aðgerða til að vernda þau dýr sem eftir eru af tegundinni. Eins vekja músadádýrin von manna um að fleiri dýr sem talin eru horfin úr náttúrunni séu enn meðal okkar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV