Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

London og pyngja Pútíns

27.03.2018 - 17:47
Pútín heldur árlega stefnuræðu sína í Moskvu, í mars 2018
 Mynd: AP
Margir þeirra sem berjast gegn spillingu í heiminum telja London eina allsherjar þvottastöð fyrir illa fengið fé. Sigrún Davíðsdóttir fór í ferð um borgina með samtökum sem berjast gegn þjófræði og peningaþvætti í breskum eignum. Erindið var að sjá húseignir í eigu Rússa í innsta hring Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, sem sumir telja auðugasta mann í heimi. Tilgangurinn var að minna á þessi tengsl eftir tilræðið við gagnnjósnarann Sergei Skripal og dóttur hans.

Samtökin ClampK berjast gegn því að fé sem fengið er í skjóli þjófræðis sé þvegið með eignakaupum. Til þess að gera slóð peninganna sýnilega fara samtökin meðal annars með blaðamenn, þingmenn og fleiri um London. 

Frá Kreml að bökkum Thames

Nýleg ferð hófst við Whitehall Court á bökkum Thames, steinsnar frá Downing-stræti og öðrum stjórnarráðsbyggingum. Þarna kemur aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, Igor Shuvalov við sögu. Árslaun hans eru há á rússneskan mælikvarða, samsvara 15,5 milljónum króna en duga skammt til kaupa á tveimur samliggjandi íbúðum þarna fyrir 1,6 milljarða króna.

Rússar í öðru sæti spillingarlistans

Líkt og á við um fleiri eigendur glæsieigna í London loðir spillingarorðrómur við Shuvalov. Samtökin Transparency International fylgjast með eignakaupum erlendra spillingarafla í Bretlandi. Samkvæmt rannsókn þeirra eru flestir kaupendur af því tagi frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Rússar eru í öðru sæti, eiga um fimmtung þessara eigna.

Sjón er sögu ríkari

En af hverju að bjóða í ferðalag, af hverju ekki bara að birta upplýsingarnar? Hagfræðingurinn Arthur Doonan er einn forsvarsmanna ClampK og segir það allt aðra upplifun að sjá hvernig spillt fé er notað í London. Já, sjón er sögu ríkari og það hefur haft áhrif á þá sem rannsaka þessi mál, líka blaðamenn og stjórnmálamenn sem hafa slegist í för með okkur, segir Doonan.

Eaton-torgið eða ,,Rauða torgið” í London

Næst lá leiðin að Eaton-torgi sem um aldabil hefur dregið að sér þá sem eitthvað mega sín. Einu sinni voru það breskir stjórnmálamenn. Nú eru það Rússar og torgið því stundum kallað Rauða torgið.

Andrei Goncharenko vinnur hjá rússneska orkufyrirtækinu Gazprom sem er í meirihlutaeigu rússneska ríkisins. Hann virðist ekki sérlega háttsettur en keypti þó á rúmu ári fjórar húseignir í London fyrir 35 milljarða króna. Það hjálpar kannski að vera náinn Rotenberg-fjölskyldunni sem aftur er náin Rússlandsforseta. Boris Rotenberg sætir viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins.

Húsin á Eaton-torginu eru sambyggð, öll eins að utan líkt og víða á gömlum breskum torgum. Hús Goncharenkos á Eaton-torgi kostaði tvo milljarða króna, sem var þó smotterí miðað við húsið við Regent park sem Goncharenko keypti um svipað leyti fyrir 14 milljarða króna, þá dýrasta hús sinnar tegundar í höfuðborginni.

Þjófræði sem skilar fé til London

En hvað felst í hugtakinu „þjófræði”? „Það er þegar fólk með pólitísk sambönd stelur inn að beini, stelur frá skattgreiðendum. Og peningarnir enda hér í London eftir stutta ferð um þvottavélar aflandssvæðanna,” segir Roman Borisovich, einn stofnenda ClampK.

Belgravia-torgið hefur lengi haft svipað aðdráttarafl og Eaton-torgið. Þarna á álkóngurinn Oleg Deripaska hús. Hann er góðvinur Pútíns og reyndar einnig Pauls Manaforts sem nú sætir rannsókn í Bandaríkjunum vegna meintra Rússatengsla Bandaríkjaforseta. Deripaska á einnig í málaferlum við rússneska fyrrum lagskonu sína sem segist eiga efnismiklar upptökur frá snekkju Deripaska.

Ólígarkar í túnfæti konungsfjölskyldunnar

Rússaferðin lá líka um túnið hjá konungsfjölskyldunni. Vilhjálmur prins og fjölskylda búa í Kensington-höll við „milljarðamæringagötuna” Kensington Palace Gardens. Nágrannar þeirra eru tveir ólígarkar í reisulegum húsum, þeir Roman Abramovitsj, eigandi Chelsea-fótboltaliðsins með meiru, og Leonard Blavatnik, nú Sir Leonard. Og ekki langt frá á sonur Vladimir Yakunins átta svefnherbergja hús, líka í milljarðaklassanum. Yakunin var yfirmaður rússnesku járnbrautanna, það er ekki hálaunastarf en hann er gamall vinur Pútíns.

Bresk yfirvöld vantar ekki lög heldur viljann

Vladimir Ashurkov er samstarfsmaður Alexeis Navalny, sem var bannað að bjóða sig fram í nýafstöðnum forsetakosningum í Rússlandi. Myndbönd Navalnys hafa átt mikinn þátt í að afhjúpa spillinguna í kringum Pútín. Ashurkov fræddi gesti ClampK um að bresk lög dugi vel til að rannsaka illa fengið fé og eigendur þess. Það vanti hins vegar viljann. Alla vega hingað til.

Skripal-málið hefur ýtt við bresku stjórninni

Fjölmiðlar hafa um árabil fjallað um kaup rússneskra ólígarka á breskum glæsieignum. En eftir morðtilræðið við Sergei Skripal og dóttur hans hafa breskir ráðherrar verið áberandi fúsari til að ræða ráðstafanir. Þurfti þá banatilræði til að vekja áhuga bresku stjórnarinnar? Roman Borisovich segir tilræðið ljóslega hafa haft áhrif. „Einn möguleikinn á gagnaðgerðum væri að snúast gegn þjófræðinu, gegn þeim sem geyma pyngju Pútíns.”

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir