Lómur er fugl ársins

15.02.2017 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Fuglaverndarfélagið hefur tekið upp þá nýbreytni að velja fugl ársins. Í ár er það lómur sem hreppir þessa virðulegu nafnbót. Lómur er einkennisfugl Friðlands í Flóa og margir fuglaunnendur fara á vorin og fylgjast með lóminum synda með nokkurra daga gamla unga sína á bakinu. Stefnt er að því að velja árlega fugl sem Fuglaverndarfélagið vill vekja sérstaka athygli á meðal félagsmanna, almennings og fjölmiðla. Fólk er hvatt til að senda Fuglaverndarfélaginu upplýsingar um lóminn.

Í Fuglum, tímariti Fuglaverndarfélagsins, segir að valdir verði fulgar sem eigi undir högg að sækja, njóti almennrar hylli eða þarft sé að kynna. Þá segir að margir spyrji sig kannski hvers vegna haförninn varð ekki fyrir valinu sem fugl ársins og því svarað til að hann hafi eiginlega verið fugl ársins 2013. Þá var gefið út sérstakt arnarrit og umfjöllun um þennan konung fuglanna hafi verið umtalsverð. 

Lómurinn er samofin íslenskri menningu og er hann einn af helstu spáfuglum Íslendinga. Lómur vælir ámátlega þegar hann er á sundi en gaggar þegar hann er á flugi. Sagt var að þegar lómurinn vældi væri von á rigningu en þegar hann gaggaði yrði þurrkur. Hægt er að spila hljóð lómsins á Fuglavefnum.

Barlómur og lómsbrögð
Þá er talað um að berja lóminn þegar fólk kvartar eða ber sig illa. Orðatiltækið er frá síðari hluta 17. aldar. Í bókinni „Mergur málsins“, eftir Jón G. Friðjónsson segir að orðatiltækið sé hugsanlega dregið af lóminum sem „ber vængjunum í jörðina þegar egg hans eru tekin frá honum og ræðst óvægilega að ræningjum“, eins og segir í bókinni. Þá er orðið barlómur, sem þýðir vol og víl, kvein og kvartanir, sennilega dregið af þessu orðatiltæki. Einnig er til orðið lómsbrögð sem þýðir hrekkjarbrögð. 

Lómur er af ættbálki brúsa, eins og himbrimi. Þeir frændur eru straumlínulagaðir og goggurinn er uppsveigður og grannur og minnir jafnvel á rýting. Lómur er grár að lit, dökkur að ofan en ljós að neðan. Á sumrin er hann grár á höfði og hálshliðum með dumbrauða skellu á framhálsi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Goggurinn á lómnum minnir einna helst á rýting.

Fæturnir eru mjög aftarlega á búknum og þess vegna getur lómurinn nánast ekkert gengið. Því eru eru hreiður lóms mjög nærri vatni þannig að hann geti skriðið á maganum á hreiðrið og út í vatn aftur. Lómurinn er þungur á sér og þarf þess vegna að taka tilhlaup á vatnsborðinu til að hefja sig til flugs. Fuglinn lendir svo magalendingu aftur á vatninu með tilheyrandi gusugangi. 

Notar gogginn eins og rýting til varnar
Lómur ver hreiður sín og unga af hörku. Hann ræðst á stóra fugla sem smáa og hikar ekki við að leggja í álftir. Lómurinn kafar oft undir álftirnar eða aðra fugla og stingur beittum gogginum í kviðinn á þeim. 

Lómur er algengastur við sjávarsíðuna. Fimmtán hundruð til tvö þúsund pör mynda varpstofninn. Einn besti staðurinn til að skoða lóminn er í Friðlandi í Flóa. Þar er fuglaskoðunarhús og einnig er hægt að ganga um friðlandið. Það er nokkuð úr alfaraleið og þess vegna er oft hægt að heyra heila sinfóníu af fuglahljóðum. Lómurinn kemur í friðlandið í lok mars en þeir sem ekki geta beðið svo lengi geta horft á heimsókn Landans í friðlandið og/eða hlýtt á hljóðmynd úr friðlandinu

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi