Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lokun skóla hefði lítil áhrif á útbreiðslu faraldursins

12.03.2020 - 18:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að með því að loka skólum eða leikskólum næðist takmarkaður árangur gegn COVID-19 faraldrinum, þar sem börn fái almennt lítil einkenni sjúkdómsins.

Víða erlendis hefur skólum verið lokað. Þórólfur segir að á þessum tímapunkti væri árangurinn af því takmarkaður. „Í þessu eru börnin ekki mestu smitberarnir. Þau fá nánast engin einkenni og það eru áhöld um það hversu mikið af börnum sýkjast í raun og veru, þannig að ég hugsa að áhrifin af lokun skóla sé ekki eins mikil í þessum faraldri eins og til dæmis í heimsfaraldri inflúensu,“ segir Þórólfur.

Þeir sem hafa lítil einkenni eru taldir ólíklegri til að smita út frá sér, meðal annars vegna þess að einkennalitlir eru síður að hósta.

Þórólfur segir ekkert hæft í því að minna hafi verið gert hérlendis en í nágrannalöndunum til að stemma stigu við faraldrinum. „Við erum búin að gera hér meira í því að rekja smit og hafa upp á einstaklingum og setja einstaklinga í sóttkví heldur en hin Norðurlöndin,“ segir Þórólfur. Honum finnst umræðan ósanngjörn í garð starfsmanna, sem hafi lagt mikið á sig undanfarna daga og vikur. „ Það er bara ekki sanngjarnt fyrir allt þetta góða fólk sem hefur unnið hér myrkranna á milli við það að hindra útbreiðslu þessarar veiru hér innanlands.“ 

Þetta er í samræmi við það sem fram kom í máli yfirlæknis Sóttvarnarstofnunar Danmerkur í dag. Hann segir að skimun Íslendinga á fólki sem var að koma frá öðrum svæðum en þeim sem þá voru skilgreind áhættusvæði á Norður-Ítalíu hafi opnað augu Dana fyrir því að veiran gæti verið útbreiddari en áður var talið.

Tvö liggja veik á sjúkrahúsi vegna COVID-19

Þrír Íslendingar smituðust af COVID-19 veirunni í Bandaríkjunum. Alls hafa 109 verið greindir með veiruna hérlendis, þar af eru 23 sem smituðust innanlands.  Karl og kona eru á sjúkrahúsi vegna COVID-19 smits. Hvorugt er á gjörgæslu, en þau eru í einangrun á smitsjúkdómadeild Landspítala. Þar er hægt að taka við allt að átján COVID-smituðum sjúklingum. Ef fleiri verða svo veikir að þeir þurfa innlögn verður öðrum deildum breytt í einangrunardeildir. 

Þau tilfelli sem hafa greinst á Íslandi er öll hægt að rekja til fólks sem hefur verið í útlöndum. Um 900 eru nú í sóttkví hérlendis. Langflestir þeirra sem hafa greinst undanfarið voru þegar í sóttkví. 

„Hins vegar eru þarna ný tilfelli sem koma frá Bandaríkjunum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. „Þeir voru ýmist veikir fljótlega eftir að þeir komu og greindust þannig tiltölulega fljótt.“ Unnið er að smitrakningu vegna þeirra og þegar hafa tugir farið sóttkví í tengslum við þessi smit.

Gæti komið að því að allir sem koma til landsins fari í sóttkví

Þórólfur segir að til greina komi að víkka út skilgreint áhættusvæði eftir því sem faraldurinn breiðist meira út. „Það fer kannski að nálgast það að menn þurfi að velta því fyrir sér hvort það eigi að setja alla sem eru að koma til Íslands hreinlega í sóttkví en það gæti reynst mjög erfitt í framkvæmd.“

Víðir Reynisson segir mikilvægt að halda rónni. „Og hættum ekki að vera til. Það er mjög mikilvægt að við höldum áfram, á meðan við getum, að hittast og höldum áfram að lifa lífinu,“ segir Víðir.