Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lokaumræða um NPA frumvarpið í dag

26.04.2018 - 11:20
Innlent · NPA · Stjórnmál
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Þriðja og síðasta umræða um frumvarp félagsmálaráðherra um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, oft kallað NPA frumvarpið er á dagskrá í dag og því viðbúið að það verði þá að lögum. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi mótakvæðislaust í gær að lokinni annarri umræðu. Þetta frumvarp þykir mikið tímamótaskref í baráttu fatlaðs fólks fyrir bættum réttindum og hefur verið árum saman í vinnslu.

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis, sagði við atkvæðagreiðsluna í gær að hún fagnaði þessum áfanga og þeirri samstöðu sem hefði verið í nefndinni.

Ólafur Þór Gunnarsson, varaformaður nefndarinnar, sagði að með frumvarpinu væri mikilvægt skref tekið inn í 21. öldina. Verkinu væri þó ekki lokið og mikilvægt að sveitarfélög og fatlaðir haldi vöku sinni.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagðist stolt af því að vera þingmaður, þetta væru tímamót og gleðistund.

Þá var líka samþykkt á Alþingi í gær frumvarp félagsmálaráðherra um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýslu og húsnæðismál.