Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lokatölur úr Suðvesturkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur í Suðvesturkjördæmi en tapar einum þingmanni frá síðustu kosningunum, samkvæmt lokatölum úr kjördæminu sem voru birtar rétt fyrir klukkan hálfníu í morgun. Vinstri-græn bæta við sig einum þingmanni og hafa nú tvo. Flokkur fólksins, Samfylkingin og Miðflokkur fá þingmann í Suðvesturkjördæmi en höfðu engan áður. Framsóknarflokkurinn heldur sínum manni en Píratar tapa öðrum þingmanni sínum í kjördæminu.

Guðmundur Andri Thorsson Samfylkingu og Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, eru nýir þingmenn í kjördæminu og Ólafur Þór Gunnarsson snýr aftur á þing fyrir Vinstri-græn eftir fjögurra ára fjarveru. Gunnar Bragi Sveinsson er kosinn á þing fyrir Miðflokkinn í Suðvesturkjördæmi en var áður á þingi fyrir Framsóknarflokkinn í Norðvesturkjördæmi. Þá snýr Willum Þór Þórsson aftur á þing fyrir Framsóknarflokkinn eftir eins árs fjarveru.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV