Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lok, lok og læs og allt í stáli á Djúpavík

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Halldórsson - RÚV

Lok, lok og læs og allt í stáli á Djúpavík

03.10.2016 - 17:45

Höfundar

„Þarna eru menn frá Reykjavík sem hafa bannað allar myndatökur en ég var þrjóskur og þver og tók nokkrar myndir,“ segir Jón Halldórsson, landpóstur á Hólmavík, sem náði nokkrum myndum af því mikla umstangi sem er í kringum stórmyndina Justice League. Tökur voru að klárast í Lundúnum og hefur tökuliðið sett stefnuna á Vestfirði.

Eva Sigurbjörnsdóttir, hótelstýra á Hótel Djúpavík, staðfestir í samtali við fréttastofu að þar sé allt lokað - öll gisting uppbókuð og verður það næstu tvær til þrjár vikur. „En ég má auðvitað ekkert segja,“ segir Eva.

Framleiðslufyrirtækið Truenorth hefur veg og vanda af framleiðslunni hér á landi en hvorki náðist í Leif Dagfinsson, framleiðanda, né Helgu Margréti Reykdal, framkvæmdastjóra við vinnslu fréttarinnar. Fram kom á fréttavefnum eirikurjonsson.is fyrir helgi að um fimmtíu statistar frá leikfélagi Hólmavíkur tækju þátt í gerð myndarinnar.

Visir.is hafði áður upplýst að nokkur fjöldi íslenskra leikara færi með lítið hlutverk í myndinni, meðal annarra Ingvar E. Sigurðsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Kristbjörg Kjeld. Þar kom einnig fram að flogið hefði verið með leikarana íslensku til Lundúna þar sem tökur hafa farið fram.

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Halldórsson - RÚV
Hjólahýsahverfi Hollywood í Kjósinni norður á Ströndum.

Jón Halldórsson, landpóstur, náði myndum af tugum hjólhýsa sem komið hefur verið fyrir rétt utan við þorpið og eiga að hýsa tökuliðið. Jón segir að hann hafi farið á vettvang á föstudag og þá hafi honum tekist að ná nokkrum myndum. Á laugardag hafði öryggisgæslan verið hert. Hann dó þó ekki ráðalaus og faldi myndavélina á milli hnakkapúða og sætisins. 

Á einu myndskeiði, sem Jón birti á Facebook-síðu sinni, má heyra öryggisvörð segja að hann geti ekki hleypt fólki í gegn ef það er með myndavél og biður landpóstinn um að keyra varlega. „Ég veit um ferðamenn sem hafa ekki einu sinni fengið að taka myndir þarna,“ segir Jón í samtali við fréttastofu.  

Í athugasemdum við eina af færslum Jóns skrifar Ásbjörn Þorgilsson, annar af eigendum hótelsins á Djúpavík. Hann segir að sem betur fer sé stærsti hluti sviðsmyndarinnar ekki kominn fram. „Þá verður hart tekið á þeim sem hafa verið staðnir að því að vera reyna að leka hér út þeirri aðstöðu sem búið er að kosta til milljónum í að útbúa.“ Verið sé að breyta öllu þorpinu í sviðsmynd, skrifar Ásbjörn.

Á Comicbook-vefnum, sem fylgst hefur grannt með allri framleiðslu Justice League, kom fram að einn af aðalleikurum myndarinnar hefði gefið vísbendingar um hvert tökuliðið væri að fara næst eftir Lundúnum. Hann upplýsti á Instagram-síðu sinni að hann gæti ekki verið viðstaddur lokahófið þar því hann þyrfti að undirbúa sig fyrir norðrið. 

Fram kom í Bændablaðinu í sumar að von væri á 200 manns til að vinna að myndinni. Ásbjörn sagði í samtali við blaðið að von væri á skemmtiferðaskipi sem ætti að hýsa fólk á meðan tökum stæði. 

Justice League á að vera ein af jólamyndum næsta árs en þar leiða saman hesta sína allar helstu ofurhetjur DC Comics -  meðal annars Ofurmennið og Leðurblökumaðurinn. Með helstu hlutverk fara Ben Affleck, Henry Cavill og Jeremy Irons. Leikstjóri er Zack Snyder