Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögum um fjöleignahús breytt vegna rafbíla

05.06.2019 - 17:00
Mynd: RÚV / RÚV
Í skýrslu starfshóps um orkuskipti er varpað fram hugmyndum um að veitt verði hagstæð framkvæmdalán til að liðka fyrir uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafbíla í fjölbýlishúsum. Þá er hafinn undirbúningur í félagsmálaráðuneytinu að því að breyta lögum um fjöleignahús til að auðvelda rafbílavæðinguna.

Stjórnvöld hafa ákveðið að beina sjónum að fjölgun hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla með fram þjóðvegum landsins til að auðveldara verði að komast leiðar sinnar á rafbílum. Einnig verður gert átak til að rafvæða bíluleiguflotann og stefnt er að því að koma upp hleðslustöðvum sem víðast við gististaði. Þetta eru tvö verkefni af átta sem starfshópur, sem vann skýrslu fyrir stjórnvöld um leiðir til að hraða orkuskiptum, telur mikilvæg. Önnur verkefni sem tengjast innviðauppbyggingu eru hleðslumöguleikar í fjölbýlishúsum, orkuskipti í almenningssamgöngum, raftenging hafna, metan- og vetnisafgreiðsla og loks afgreiðsla á innlendu íblöndunareldsneyti.

Fjölbýlishús í vanda

Þjóðskrá hefur flokkað íbúðarhúsnæði út frá möguleikum á að koma upp hleðslustöðvum. Bestu möguleikarnir eru íbúðir með bílskúr þar sem ekki er mikið vandamál að hlaða rafbíl. Erfiðasti flokkurinn eru fjölbýlishús þar sem ekki eru bílskúrar og hugsanlega sameiginlegt útibílastæði. Samkvæmt flokkun Þjóðskrár eru 49% alls íbúðarhúsnæðis með auðvelt aðgengi að rafmagni. Hins vegar eru um 43% með lítið eða erfitt aðgengi að eigin rafmagnstenglum. Samkvæmt Þjóðskrá eru þetta um 14 þúsund byggingar sem er tæplega fjórðungur allra bygginga.

Hagstæð lán 

Í skýrslunni eru viðraðar hugmyndir um hvernig styðja megi rafvæðingu í fjölbýlishúsum. Skýrsluhöfundum hugnast ekki beinir fjárfestingarstyrkir því þeir myndu líklega hreinsa upp allt það fjármagn sem ætlað er til innviðauppbyggingar og hugsanlega skapa óánægu meðal þeirra sem fengju ekki styrk. Heppilegra sé að að bjóða upp á almennar aðgerðir. Ein leið sé að bjóða upp á hagstæð framkvæmdalán í gegnum Íbúðalánasjóð. Þetta gæti verið mikilvægt því erfitt geti verið að sannfæra íbúa sem ekki eiga rafbíl að fara í sameiginlegar fjárfestingar. Hagstætt lán myndi milda fjárfestingarþungann. Myndi fleyta honum inn í framtíðina. Líklegt sé að sífellt fleiri fái sér rafbíl í nánustu framtíð. Þá er líka velt upp þeim möguleika að virðisaukaskattur af hleðslustöðvum verði endurgreiddur. Það væri í samræmi við eða í takt við að virðisaukaskattur er felldur niður af rafbílum. 

Lögum breytt

Á kynningarfundi þriggja ráðuneyta á fyrirhugaðir innviðauppbyggingu vega orkuskiptanna kom fram að þegar sé hafinn undirbúningur í félagsmálaráðuneytinu að því að breyta lögum um fjöleignahús með það að leiðarljósi að liðka fyrir rafbílavæðingunni. Í skýrslunni kemur fram að breytingin gæti falið í sér að heimilt verði að sérmerkja stæði fyrir rafbíla og að einfaldur meirihluti húsfélags gæti tekið ákvörðun um að koma upp hleðslustöðvum. Samkvæmt núgildandi lögum þurfa allir að samþykka breytta notkun á sameiginlegu bílastæði. Einnig að réttur hvers íbúa væri tryggður til að koma upp hleðslustöð á sinn kostnað ef húsfélagið tryggir ekki aðgang að slíku stæði.

Fjölbýlishúsavandinn er einn þáttur af mörgum sem myndar flöskuháls og getur seinkað  eða torveldað orkuskiptin. Nýskráning rafbíla er nú 20% af heildarsölunni. Spár gera ráð fyrir að þetta hlutfall fari í fjórðung á næsta ári, í 50 af hundraði 2024 og 80% 2028. Þá verði heildarfjöldi rafbíla kominn í 100 þúsund. Stefnt er að því að olíunotkun minnki úr 300 þúsund tonnum í 150 þúsund tonn fyrir 2030.