Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögreglustjóri hættir vegna eiturlyfjamáls

14.10.2019 - 06:42
epa07884468 Philippine National Police (PNP) Chief General, Oscar Albayalde, gestures as he testifies during a Senate investigation in Pasay City, Philippines, 01 October 2019. According to media reports, Albayalde was dragged into the Senate's probe against one of his subordinates' alleged involvement in the illicit reselling of confiscated drugs in 2013.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA
Ríkislögreglustjóri Filippseyja hætti störfum í dag vegna gruns um að hann hafi haldið hlífiskildi yfir lögreglumönnum sem sakaðir eru um að selja eiturlyf í vörslu lögreglunnar. Eiturlyfin fundust við húsleit í bæ nærri höfuðborginni Manila árið 2013. Tveir fyrrverandi lögreglumenn bentu á hlut Oscar Albayalde, ríkislögreglustjóra, í málinu. Annar þeirra sagði Albayalde hafa verndað lögreglumennina sem seldu eiturlyfin, en hinn segir hann hafa fengið hluta af ágóðanum.

Albayalde gegndi þá embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Hann neitar alfarið sök í málinu. Málið þykir allt hið vandræðalegasta fyrir Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja. Hann nýtur vinsælda í landinu vegna herskárrar baráttu sinnar gegn eiturlyfjum og spillingu innan lögreglunnar. Hann hefur verið þögull sem gröfin vegna máls Albayalde, enda er hann ráðinn í embætti af Duterte. Hann hóf störf sem ríkislögreglustjóri í apríl í fyrra, og átti að fara á eftirlaun í næsta mánuði. Albayalde þakkaði Duterte traustið í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér þegar hann hætti í morgun. 

Neri Colmenares, lögmaður fjölskyldna sem berjast fyrir því að Alþjóðaglæpadómstóllinn taki fyrir stríð Dutertes gegn eiturlyfjum, segir ásakanirnar í garð Albayalde einkar vandræðalegar. „Hæstráðendur í ríkislögreglunni taka meira að segja þátt í eiturlyfjabraski," hefur AFP fréttastofan eftir honum. Það sýni að stríðinu sé beint að fátæku fólki í Filippseyjum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV