Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lögreglustjórar vilja setja lög um eltihrella

08.02.2016 - 07:03
Mynd með færslu
Myndin er úr safni. Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Bæði Lögreglustjórafélag Íslands og lögreglustjórinn á Suðurnesjum telja mikilvægt að sett verði sérstakt ákvæði um umsáturseinelti - „stalking“ eins og það heitir ensku. Þetta kemur fram í umsögn þeirra við frumvarp Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, þar sem heimilisofbeldi verður lögfest sem sérstakt ákvæði í hegningarlögum.

Frumvarpinu er ætlað að fullgilda svokallaðan Istanbul-samning Evrópuráðsins.

Í frumvarpinu kemur fram að þegar litið er til íslenskra hegningarlaga verði ekki talin þörf á að setja sérstakt ákvæði um eltihrella og umsáturseinelti. En þessu eru lögreglustjórar ekki sammála.  

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í umsögn sinni að koma þurfi skýrt fram í lögum að réttur þess sem verði fyrir barðinu á eltihrelli verði talinn ríkari en réttur þess sem því beitir. Það séu grundvallar mannréttindi einstaklings að þurfa ekki að sæta áreiti frá öðrum einstaklingi. Hann telur að lögreglu þurfi að vera heimilt að skerða réttindi þess sem beitir umsáturseinelti til að tryggja friðhelgi þess sem fyrir því verður.

Undir þetta er tekið í umsögn Lögreglustjórafélags Íslands. Þar kemur fram að þessi máli hafi oft reynst erfið. Því yrði mjög gott að hafa sérstakt ákvæði um þessi brot í hegningarlögum - slíkt yrði táknræn viðurkenning á sérstöðu þeirra. 

Kastljós fjallaði undir lok árs 2014 um mál Ásdísar Viðarsdóttur sem vakti mikla athygli.  Fyrrverandi sambýlismaður hennar var í nóvember dæmdur í 14 mánaða fangelsi fyrir að hóta henni ítrekað - brot hans höfðu staðið árum saman.