Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lögreglunám á háskólastig

26.04.2016 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Lögreglunám verður fært á háskólastig verði frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á lögreglulögum samþykkt af Alþingi. Ríkisstjórnin samþykkti frumvarpið í dag, en svo fer það til umfjöllunar hjá þingflokkum stjórnarflokkanna.

Lögregluskólinn lagður niður

Tveir starfshópar hafa unnið að tillögum um framtíðarskipan lögreglumenntunar. Niðurstaða þeirra er að lögreglunám færist á háskólastig. Sérstök deild innan lögreglunnar sjái síðan um tengingu verkslegs og fræðilegs náms og sinni rannsóknar- og fræðslustarfi. Lögregluskóli ríkisins verður lagður niður 30. september, en þeir sem stunda þar nám nú ljúka náminu í haust. Framtíðarmenntun lögreglumanna verður í samræmi við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.

Margir háskólar sýna áhuga

Ljúka þarf að lágmarki 120 námseiningum á háskólastigi til að fá vinnu sem lögreglumaður. Ekki kemur fram í frumvarpinu hvaða háskóli skuli sjá um lögreglumenntunina, en samkvæmt frétt á vef innanríkisráðuneytisins sýndu Háskóli Íslands í samstarfi við Keili, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Bifröst og Háskólinn á Akureyri áhuga á kennslunni.

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV