Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Lögreglumenn vilja rafbyssur

22.06.2015 - 20:45
Rafbyssur hafa verið notaðar af lögreglu víða undanfarin ár. Landssamband lögreglumanna hefur tvisvar sent frá sér ályktun þess efnis að vilji sé til þess meðal lögreglumanna að taka upp notkun þeirra hérlendis. Um ágæti þess eru þó mjög skiptar skoðanir.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segist telja að rafbyssur geti dregið úr meiðslahættu á lögreglumönnum og á nýjustu gerðum byssnanna séu myndavélar, sem taka upp hljóð og mynd um leið og kveikt er á þeim. Það ætti að draga úr hættu á misnotkun. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa lagst gegn því að þessi vopn verði leyfð hér því talið sé að fjölmörg dauðsföll megi rekja til beitingar þeirra, auk þess sem það jafngildi pyntingum að gefa manneskju 50.000 volta straum. Eins sé ekki vitað hvaða áhrif rafstuðið hafi á fólk sem er undir áhrifum vímuefna eða með undirliggjandi hjartasjúkdóma. Innanríkisráðuneytið og ríkislögreglustjóri hafa ákvörðunarvald í málinu.

thoraa's picture
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV