Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Lögreglumenn urðu fyrir súrefnisskorti

05.11.2014 - 18:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglumenn við daglegt eftirlit í Holuhrauni urðu fyrir súrefnisskorti í síðustu viku. Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna, segir að margar af gastegundunum sem komi upp úr gosstöðvunum ryðji frá sér súrefni og komi ekki fram á mælum.

Víðir segir að lögreglumennirnir hafi numið staðar við hraunjaðarinn, töluvert frá eldstöðvunum sjálfum, og farið örfáar mínútur út úr bílnum. Þeir hafi komið sér á öruggara svæði eftir að hafa fundið fyrir óþægindum sem þeir mátu sem einkenni súrefnisskorts og mælitæki þeirra fóru að gefa frá sér viðvörun. „Það tók nokkra klukkutíma fyrir þá að ná sér aftur,“ segir Víðir.

Mælarnir hafi sýnt gildi á gasi upp á 7000 míkrógrömm á rúmmetra, sem teljist ekki mikið, auk þess sem lögreglumennirnir hafi verið með gasgrímur. „En það sem var að súrefnismælarnir sýndu mjög lág gildi þannig að þarna voru efni á ferðinni sem ryðja burt súrefni sem ollu þessu.“

Víðir segir að þar geti ýmsar gastegundir komið til greina en ekki séu til mælingar á því hvaða efni var þarna á ferðinni. „Það eru nokkrar tegundir sem ryðja frá sér súrefni sem gera svæðið hættulegra. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að svæðið er lokað fyrir annarri umferð en þeirra sem þurfa að vera þarna starfi sínu vegna.“

Erfið færð er nú við gosstöðvarnar.  „Þetta er farið að taka sjö átta klukkutíma að keyra milli gosstöðvanna og niður á Möðrudal,“ segir Víðir. Hann segir að það hamli þó ekki störfum Almannavarna á svæðinu. „Nei nei við aðlögum okkar bara að þessu og sinnum bara þesssum verkefnum eins og hægt er miðað við aðstæður.“