Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lögreglufulltrúi hreinsaður af ásökunum

08.06.2016 - 20:24
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Héraðssaksóknari hefur fellt niður mál lögreglufulltrúa hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, í samtali við fréttastofu. Málið hefur verið til rannsóknar hjá embættinu í nærri hálft ár.

Heimildir fréttastofu herma að niðurstaðan úr rannsókninni hafi verið mjög afgerandi - ekkert hafi komið í ljós sem bendi til þess að lögreglufulltrúinn hafi brotið af sér í starfi -  það megi meðal annars rekja til ágreinings innan fíkniefnadeildarinnar.

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, vildi ekki tjá sig um einstaka þætti málsins en staðfesti að niðurstaðan hefði verið mjög afgerandi - ekkert saknæmt hefði komið í ljós við rannsókn málsins.

Málið rataði fyrst í fjölmiðla þegar visir.is fór að greina frá ólgu innan fíkniefnadeildarinnar í lok síðasta árs. Ríkissaksóknari ákvað að eigin frumkvæði að hefja rannsókn á málinu um miðjan janúar og var lögreglufulltrúanum vikið frá störfum nokkrum dögum seinna.  

Málinu var vísað til embættis héraðssaksóknara sem hefur haft málið til meðferðar síðan eða í nærri hálft ár. Rannsókn embættisins hefur verið mjög umfangsmikil en fjöldi lögreglumanna hefur verið kallaður til skýrslutöku. 

Fjaðrafokið hafði sínar afleiðingar - meðal annars fréttaflutningur þess efnis að lögreglufulltrúinn hefði komið að tálbeituaðgerð við Hótel Frón sem farið hefði út um þúfur. Síðar kom í ljós að sérsveitarmaður hafði misskilið skipanir og handtekið of snemma. 

Fréttatíminn greindi frá því að Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildarinnar, stæði tæpt vegna málsins en blaðið sagðist hafa heimildir fyrir því að lögreglufulltrúinn og Aldís væru nánir samstarfsmenn.  

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, ákvað að færa Aldísi  til í starfi aðeins nokkrum dögum eftir að rannsókn hófst. Aldís hefur óskað eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun.