Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lögreglu óheimilt að halda Sindra

20.04.2018 - 19:22
Mynd: RÚV/samsett mynd / RÚV/samsett mynd
Lögreglu var óheimilt að halda Sindra Þór Stefánssyni strokufanga í fangelsi, eftir að gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum rann út. Þetta er mat sérfræðings í réttarfari. Hæstiréttur sagði slíka háttsemi vítaverða í dómi árið 2013.

Sindri Þór Stefánsson, sem strauk úr fangelsi og flúði til Svíþjóðar aðfaranótt þriðjudags, segist í yfirlýsingu, sem hann sendi Fréttablaðinu, ætla að snúa fljótlega heim aftur. Af yfirlýsingu hans að ráða virðist sem flóttinn hafi verið hugsaður sem eins konar mótmæli gegn því að vera gert að sitja inni eftir að gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum var útrunninn.

Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir Sindra rann út síðdegis á mánudag. Fyrr sama dag var hann leiddur fyrir dómara, sem tók sér sólarhringsfrest til að ákveða, hvort verða skyldi við beiðni lögreglu um áframhaldandi gæsluvarðhald. Í yfirlýsingunni segir Sindri að starfsfólk á Sogni hafi upplýst hann um að þetta þýddi að hann væri tæknilega frjáls ferða sinna, þar til dómsúrskurður lægi fyrir. Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir hins vegar að úrskurðurinn hafi verið í gildi.

„Það er ávalt þannig þegar leitað er framlengingar á gæsluvarðhaldi þá heldur hinn fyrri úrskurður gildi sínu þangað til dómari hefur úrskurðað um nýja kröfu. Ég tel að lögin séu algjörlega skýr um þetta og ofan á það bætist að þetta er viðtekin venja og hefur verið alla mína tíð,“ sagði Ólafur Helgi í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Alveg skýrt“

Kristín Benediktsdóttir, dósent í réttarfari við lagadeild Háskóla Íslands, segir það skýrt í stjórnarskrá, að ekki megi svipta neinn frelsi nema með heimild í lögum.

„Og það er alveg skýrt og við höfum dómafordæmi um það að það má ekki svipta menn frelsi, setja þá bakvið lás og slá, hvort sem það er gæsluvarðhald, þvingunarráðstöfun, eða að dæma menn í fangelsi, nema með úrskurði dómara eða að dómari hafi dæmt menn í fangelsi,“ segir Kristín.

Hins vegar geti lögregla handtekið menn að nýju, eftir að gæsluvarðhaldsúrskurður rennur út, og haldið þeim í sólarhring í viðbót á meðan dómari fer yfir málið.

En þá þarf sannarlega að handtaka menn?

„Já. Þá þarf að handtaka menn.“

Og ef það er ekki gert verður að sleppa viðkomandi?

„Já við höfum fordæmi frá Hæstarétti um það. Það er ekki alveg skýrt hvernig eigi að bregðast við en Hæstiréttur kemst allavega að þeirri niðurstöðu að það að halda mönnum inni án heimildar, án úrskurðar dómara, sé vítavert.“

Þar vísar Kristín til dóms Hæstaréttar frá árinu 2013 þar sem sakborningur var leiddur fyrir dómara tíu mínútum áður en gæsluvarðhald yfir honum rann út. Dómari tók sér frest til að úrskurða hann í áframhaldandi gæsluvarðhald til næsta dags. Í dómi Hæstaréttar segir:

„Á tímabilinu frá því að gæsluvarðhaldið rann út, þar til hinn kærði úrskurður var kveðinn upp, var varnaraðili í haldi lögreglu. Í öðrum málslið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 er svo fyrir mælt að gæsluvarðhald verði ekki framlengt nema til komi nýr úrskurður. Samkvæmt því var varnaraðili sviptur frelsi í tæpan sólarhring án lagaheimildar og með því brotið gegn skýrum fyrirmælum 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Er það stórlega vítavert.“