Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lögreglan varar við svikapóstum

27.07.2018 - 09:35
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við svikapóstum sem fólk hefur verið fá senda að undanförnu. Þar er gerð tilraun til að hafa fé af fólki.

Í tölvupóstinum er fólki tjáð að tölva þess hafi verið sýkt af vírus á klámsíðu sem viðkomandi hafi skoðað. Vefmyndavél þeirra hafi verið gerð virk og myndband tekið af viðkomandi. Þá er fólki í tölvupóstinum sagt að það þurfi að greiða upphæð í rafmynt til að koma í veg fyrir að myndskeiðið verði sent á alla á tengiliðaskrá viðkomandi.

Að sögn lögreglu hafa verið dæmi um að þeir sem sendi póstinn hafi lykilorð móttakandans. Lögreglan ráðleggur fólki að greiða ekki upphæðina. Þessir svikapóstar séu sendir á tölvupóstföng sem gangi kaupum og sölum á vefnum og þetgar lykilorð móttakandans er einnig gefið upp þá gefi það til kynna að þau lykilorð hafi komið upp í einhverjum lekum. Ekkkert gefi til kynna að svikahrapparnir séu með myndskeið af fólki, heldur séu þeir að reyna að skapa hræðslu og fá fólk til að senda peninga. 

Lögreglan mælir með að fólk hylji vefmyndavél sína þegar hún er ekki í notkun og einnig að kanna með hvort tölvupóstföng og notendanöfn þeirra hafi verið í einhverjum lekum. Það sé hægt að gera á vefsíðunni
https://haveibeenpwned.com/
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV