Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lögreglan stöðvar Facebook-skutlara

Mælaborð í bíl.
 Mynd: Daniel Nanescu - Splitshire
Lögreglan í Reykjavík hefur undanfarna mánuði fylgst reglulega með Facebook-hópi þar sem fólk býðst til að aka öðrum millli staða í borginni gegn gjaldi. Lögreglan hefur hringt í þá sem auglýsa far og gert þeim grein fyrir því að athæfið sé ólögmætt.

Skutlarar! er lokaður Facebook-hópur sem telur um 19.500 manns. Yfirlýstur tilgangur hópsins er skýr:

„Hér geta ökumenn (skutlarar) boðið öðrum far með sér ákveðna leið, gegn gjaldi.“

Bílstjórar auglýsa gjarnan að þeir séu lausir og tilbúnir til að skutla fólki gegn greiðslu.

Fjölmargar auglýsingar eru settar inn á degi hverjum, ýmist þar sem bílstjórar bjóða far eða fólk óskar eftir fari. Langmest virðist vera að gera á kvöldin um helgar. Samkvæmt lögum um leigubifreiðar mega þeir einir keyra farþega gegn gjaldi, sem hafa til þess tilskilin leyfi. Leigubílstjórar hafa sagst finna fyrir tekjutapi vegna starfsemi ólöglegra leigubíla.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík hefur lögreglan síðustu mánuði fylgst reglulega með þeim sem bjóða far gegn greiðslu á netinu. Haft hafi verið samband við þá sem gera út á slík viðskipti og þeim gerð grein fyrir hvaða leyfi séu  nauðsynleg og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að mega stunda slíka starfsemi.

Að sögn lögreglu gera bílstjórarnir sér oftast ekki grein fyrir hinum ströngu reglum og hætta í kjölfarið að bjóða far. Ef bílstjórarnir haldi áfram að bjóða far gegn greiðslu sé haft samband við þá aftur og þeim gerð grein fyrir að það geti ekki liðist. Fylgst sé með þeim.

Sumir bílstjórar bjóða fleira til kaups en farið. Fréttastofa fann á annan tug áfengisauglýsinga í hópnum síðustu vikuna.

Einhverjir virðast gera út á áfengissölu og bjóða heimsendingu. Samkvæmt lögum hefur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins einkaleyfi á að selja áfengi. Að sögn lögreglu hefur ekki verið tekið á þessu sérstaklega, ólögleg sala áfengis hafi þekkst lengi og sé sígilt viðfangsefni lögreglunnar.