Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögreglan marggreiðir verðmæti mótorhjóla

06.09.2019 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd: -
Árleg greiðsla lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, vegna kílómetragjalds á lögreglumótorhjólum, er nálægt því að jafngilda heildarverðmæti hjólanna. Embættið marggreiðir heildarverðmæti lögreglumótorhjóla, í formi kílómetragjalds. Kílómetragjald af hefðbundnum lögreglubílum er mun lægra en af mótorhjólum.

Dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að leggja niður bílamiðstöð ríkislögreglustjóra í núverandi mynd. Lögreglustjórar telja að embætti þeirra hafi verið rukkuð of mikið um árabil, fyrir leigu á ökutækjum á vegum miðstöðvarinnar. Í fréttum í gær kom fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur að ódýrara sé að flytja mótorhjól embættisins á vögnum en að aka þeim til Keflavíkur. Kílómetragjald vegna mótorhjóls getur verið allt að 381 króna.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu kostar fullbúið lögreglumótorhjól 4,4 milljónir króna. Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að allt stefni í að embættið greiði að meðaltali rúmlega 4,1 milljón af hverju hjóli á þessu ári, og sú upphæð sé því mjög nálægt heildarverðmæti hjólanna. Ásgeir segir að hvert hjól sé notað í að minnsta kosti fimm til sjö ár og því marggreiði embættið verðmæti þeirra.

Töluverður kostnaður

Kílómetragjald sem bílamiðstöðin rukkar vegna annarra ökutækja en mótorhjóla er mun lægra. Þannig er gjaldið fyrir ekinn kílómetra á lögreglubíl á bilinu 100 til 134 krónur. Fyrir utan kílómetragjaldið greiða embættin svo fast árgjald af hverju tæki, en það árgjald á að nýta til þess að endurnýja bílaflota lögregluembætta. Þau hafa hins vegar mörg hver kvartað yfir því að lítið hafi verið um endurnýjun á bílaflota að undanförnu.
Fram kom í fréttum í gær að kostnaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna kílómetragjalda eingöngu, í tengslum við heimsókn varaforseta Bandaríkjanna, var um ein og hálf milljón króna. Vinna lögreglumanna og annar kostnaður er ekki inni í þeirri tölu. Ásgeir segir að kostnaður við kílómetragjald í tengslum við heimsókn forsætisráðherra Norðurlandanna og kanslara Þýskalands nýverið hafi verið í kringum 2 milljónir. Þá segir Ásgeir að fyrirhugaður kostnaður vegna kílómetragjalds í tengslum við heimsókn forseta Indlands í næstu viku sé á bilinu ein til tvær milljónir.