Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Lögreglan ætlar að kaupa ný vopn

26.11.2014 - 15:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Þörf lögreglunnar á vopnum hefur aukist og því hefur embætti Ríkislögreglustjóra í undirbúningi greinargerð til ráðherra um kaup á búnaði, þar á meðal vopnum. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Ríkislögreglustjóra við fyrirspurn fréttastofu RÚV.

Á föstudaginn var greint frá því að Landhelgisgæslan og norski herinn hafi komist að samkomulagi um að vopn, sem bárust hingað til lands frá Norðmönnum, verði skilað. Það hafi verið niðurstaðan eftir viðræður Landhelgisgæslunnar og norska hersins. Þá var haft samráð við embætti Ríkislögreglustjóra sem á stærstan hluta vopnanna.

Fréttastofa sendi Jóni Bjartmarz, yfirlögregluþjóni hjá Ríkislögreglustjóra, skriflega fyrirspurn vegna málsins, og spurði meðal annars hvort þörf hafi verið á byssunum fyrst ákvörðun hafi verið tekin um að skila þeim. Í svari Jóns segir meðal annars að sú ákvörðun breyti því ekki að þörf lögreglunnar á vopnum sé óbreytt og að hún hafi í reynd aukist. Embættið sé að undirbúa greinargerð til ráðherra um kaup á búnaði, þ. á m. vopnum. Fram hafi komið að viðbúnaðargeta almennu lögreglunnar varðandi vopnamál sé óforsvaranleg. Búnaður sé úreltur og af takmörkuðu magni og þjálfun algjörlega ófullnægjandi.

Svar Jóns í heild sinni:

„Við ákvörðun á árinu 2013 um að þiggja gjöf Norðmanna lá fyrir mat embættisins um þörf lögreglu fyrir aukna viðbúnaðargetu. Frá upphafi kom fram að lögreglan fengi vopnin með sama hætti og tíðkast hafði gagnvart Landhelgisgæslunni í gegnum árin og ekki þyrfti að greiða fyrir þau. Norðmenn upplýstu að þeir þyrftu að fá fyrirspurnarbréf frá ríkislögreglustjóra vegna formsatriða hjá þeim en ríkislögreglustjóri samdi aldrei um kaup á vopnunum við Norðmenn hvað þá að samið væri um e.h. verð fyrir þau. Norðmenn svöruðu ekki fyrirspurnarbréfi embættisins enda litið svo á að það væri formsatriði og vopnin yrði afhent Landhelgisgæslunni, lögreglunni að kostnaðarlausu. Landhelgisgæslan hefur gert ítarlega grein fyrir með hvernig hætti þetta hefur farið fram í gegnum árin.

Þegar svo Norðmenn lýsa því yfir fyrir skömmu, eftir að íslenskir fjölmiðlar greina frá því að um gjöf hafi verið að ræða, að ekki hafi verið um gjöf að ræða sagði Landhelgisgæslan upp samningi sem hún hafði gert við Norðmenn og hyggst endursenda vopnin í samráði við þá. Við það er komin upp ný staða hjá lögreglunni því ekki hefur verið gert ráð fyrir fjárveitingum til kaupa á vopnunum að sinni. Það breytir því ekki að þörf lögreglunnar á vopnum er óbreytt og hefur í reynd aukist og er embættið að undirbúa greinargerð til ráðherra um kaup á búnaði, þ. á m. vopnum. Svari Norðmenn bréfi ríkislögreglustjóra um útvegun á vopnum og öðrum búnaði sem spurt var um í bréfinu verður það skoðað í ljósi svara þeirra.

Það sem af er þessu ári hefur lögregluskólinn í samvinnu við lögreglustjórafélagið og ríkislögreglustjóra staðið fyrir námskeiði fyrir yfirmenn í lögreglu varðandi viðbúnað við voðaverkum þar sem meðal annars voru fyrirlesarar frá finnsku lögreglunni. Þá stóð Landsamband lögreglumanna í samvinnu við lögreglustjórafélagið og ríkislögreglustjtóra fyrir ráðstefnu innan lögreglunnar undir heitinu Lögreglan á Íslandi og vopnaburður. Auk þess hafa almannavarnadeild, greiningadeild og sérsveit ríkislögreglustjóra unnið áhættugreiningu á viðbúnaðargetu lögreglunnar til þess að takast á við vopnamál. Í öllum framangreindum tilvikum hefur komið fram að viðbúnaðargeta almennu lögreglunnar varðandi vopnamál er óforsvaranleg. Búnaður úreltur og af takmörkuðu magni og þjálfun algjörlega ófullnægjandi. Má í því sambandi nefna að í könnun sem Landsamband lögreglumanna lét gera 2012 kom fram að um 70% lögreglumanna taldi vopnaþjálfun of litla og 83,5% þeirra töldu að vopn ættu að vera í lögreglubifreiðum.

Þess má geta að hættumat embættisins og greinagerð um viðbúnaðarþörf lögreglu var kynnt allsherjar- og menntamálanefnd í síðustu viku.“

[email protected]