Lögregla vill fá að skoða símagögn Arturs

11.03.2017 - 13:16
Mynd með færslu
Artur Jarmoszko.  Mynd: RÚV - LRH
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur óskað eftir heimild Héraðsdóms Reykjavíkur um aðgang að upplýsingum um farsímanotkun Arturs Jarmoszko, 26 ára Pólverja sem ekkert hefur spurst til í tíu daga. Þá er Slysavarnafélagið Landsbjörg í viðbragðsstöðu að hefja skipulagða leit.

Síðast sást til Arturs einn á gangi í miðbæ Reykjavíkur að kvöldi miðvikudagsins 1 mars. Hann er 186 sentimetrar á hæð með græn augu og stutt dökkt hár. Artur hefur verið búsettur á Íslandi um nokkurt skeið og á ættingja sem einnig eru búsettir hér á landi. Hann er talinn hafa verið klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó þegar hann hvarf.

Að sögn Guðmundar Páls Jónssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, er ekki talið að hvarf Arturs hafi borið að með saknæmum hætti. Von sé á úrskurði héraðsdóms varðandi aðgang að símagögnum úr farsíma Arturs síðar í dag. 

Guðmundur segir að slökkt sé á farsíma Arturs, og vonast til að símagögnin geti varpað ljósi á hvenær á honum slökknaði og þá hvar. Þá vonar hann að frekari upplýsingar um staðsetningar símans og inn- og úthringingar geti hjálpað lögreglu við leitina að Arturi.

Hann segir engar vísbendingar um að Artur hafi farið af landi brott, og björgunarsveitir hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg séu í viðbragðsstöðu og reiðubúnar til leitar. Hann vonar að símagögnin geti gefið vísbendingar um hvar skuli hefja leit, en þangað til einskorðist leitin að Arturi við eftirgrennslan og rannókn lögreglu. Stjórn Landsbjargar fundaði í morgun vegna málsins.