Lögregla rannsakar rán í Kópavogi

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ? - Facebook
Lögreglu var tilkynnt um rán í Kópavogi um klukkan fimm í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sætti þolandi barsmíðum og hlaut einhverja áverka í atganginum. Lögregla rannsakar málið og hefur grun um hverjir gerendurnir eru.

Klukkan sex var kona handtekin á veitingastað í miðborg Reykjavíkur. Hún neitaði að greiða fyrir veitta þjónustu og lét öllum illum látum á veitingastaðnum, segir í tilkynningu frá lögreglunni. Konan var vistuð í fangageymslu.

Laust fyrir klukkan átta var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki við Suðurlandsbraut. Ekki liggur fyrir hverju var stolið en málið er til rannsóknar hjá lögreglu. 

Þá sinnti lögregla tveimur umferðaróhöppum í kvöld. Engin meiðsli urðu á fólki. Draga þurfti bifreið, sem hafnaði á ljósastaur á Stekkjarbakka við Reykjanesbraut, af vettvangi. Hún var mikið skemmd. Þrír bílar skemmdust í árekstri á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar í kvöld. 

Í tilkynningunni kemur fram að nokkuð hafi verið um útköll vegna óveðursins hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en engin alvarleg. Að öðru leyti hafi verið rólegt hjá lögreglu.

 

Katrín Ásmundsdóttir