
Lögregla lokar og innsiglar The Viking
Klukkan 16.34 í gær fór lögreglan á Akureyri í verslun The Viking í göngugötunni, lokaði húsnæðinu og innsiglaði með lögregluborða. Verslunin er enn lokuð. Lögreglan segir beiðni hafa komið frá Tollstjóra um að ráðast í þessar aðgerðir.
Fátítt að ráðist sé í svona aðgerðir
Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir, deildarstjóri lögfræðideildar á innheimtusviði Tollstjóra, segist í samtali við fréttastofu ekki getað tjáð sig um einstök mál en almennt geti innheimtumaður ríkissjóðs farið fram á að atvinnurekstur verði stöðvaður ef viðkomandi skuldi ákveðna skatta. Þá eru vanskil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu launagreiðenda algengust.
Spurð að því hvort það sé algengt að tollstjóri ráðist í svona aðgerðir segir hún svo ekki vera. Fyrst sé beitt vægari innheimtuaðgerðum, sé þess kostur.
Sagði lokað vegna vörutalningar
The Viking er líka með verslanir í Reykjavík, við Skólavörðustíg og Hafnarstræti. Þær eru einnig lokaðar. Þegar fréttastofa hringdi í verslunina á Skólavörðustíg í morgun sagði starfsmaður að það væri lokað vegna vörutalningar.
Sigurður Guðmundsson, eigandi verslananna, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.