Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lögregla hafði margoft afskipti af árásarmanni

28.08.2018 - 13:41
Police barricade a street near the Jacksonville Landing in Jacksonville, Fla., Sunday, Aug. 26, 2018. Florida authorities are reporting multiple fatalities after a mass shooting at the riverfront mall in Jacksonville that was hosting a video game
 Mynd: AP
David Katz, sem myrti tvo og særði tíu, áður en hann svipti sig lífi á tölvuleikjamóti í Flórída-ríki í Bandaríkjunum á sunnudag, þjáðist af geðrænum veikindum frá tólf ára aldri. Katz var 24 ára. Lögregla var kölluð 26 sinnum að heimili fjölskyldu hans á 16 árum.

Fréttastofa CNN greinir frá því að þetta komi fram í skjölum frá skilnaði foreldra hans. Hann hafi gengist undir fjölda meðferða og verið á ýmsum lyfjum. Þá hefur CNN undir höndum gögn frá lögreglu þar sem segir að 26 sinnum hafi lögregla verið kölluð til að heimili Katz á árunum 1993 til 2009. Útköllin voru meðal annars vegna geðrænna veikinda og heimiliserja. Í minnst tvö skipti var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna rifrilda Katz og móður hans.

Afhentu ekki allar lögregluskýrslurnar

Í þeim skýrslum sem CNN hefur kemur ekki fram að til líkamlegra átaka hafi komið. Lögregla neitaði að afhenda nokkrar skýrslur. Lögregluyfirvöld segja fjölskyldu Katz hafa verið samvinnuþýða. Þau hafi greint frá veikindum hans en bæði hafa þau starfað hjá hinu opinbera í Bandaríkjunum.

Mennirnir tveir sem létu lífið í skotárásinni voru þekktir spilarar meðal þeirra sem léku Madden, leik um amerískan fótbolta. Eli Clayton var 21 árs og Taylor Robertson var 27 ára, og sá síðarnefndi lætur eftir sig konu og börn.