Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lögregla hafði afskipti af 11 vegna vændis

27.04.2018 - 11:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögregla hafði í vikunni afskipti af 11 manns vegna kaups og sölu á vændi. Tveir voru kærðir grunaðir um vændiskaup. Níu fengu viðvörun því þeir höfðu auglýst starfsemi sína á opinberum vefsíðum.

Verkefnið stóð yfir í tvo daga og var unnið í samstarfi við tvo sænska lögregluþjóna sem hafa sérhæft sig í því að rannsaka vændi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Norðurlandi, Vesturlandi, Suðurnesjum og Vestmannaeyjum tók þátt í verkefninu.

Fór fram í leiguíbúðum

Vændið fór fram í leiguíbúðum og var haft samband við eigendur íbúðanna sem að sögn lögreglu höfðu ekki vitneskju um málið. Alls hafði lögregla afskipti af 11 manns, tveir voru kærðir grunaðir um kaup á vændi.

Níu fengu aðvörun fyrir að auglýsa kynlífsþjónustu á opinberum vefsíðum sem er bannað samkvæmt lögum. Í hegningarlögum segir að hver sem í opinberri auglýsingu býður fram, miðlar eða óskar eftir kynmökum við annan mann gegn greiðslu skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.

Fjöldi auglýsinga kom á óvart

Per Englund, annar sænsku lögreglumanna, segir að fjöldi vændisauglýsinga á Íslandi hafi komið sér á óvart. Hann segir dæmi um að auglýsingar séu allt að 900 talsins á einni vefsíðu. Þá sé umfang slíkra auglýsinga töluvert meira hér en í Svíþjóð.

Ásamt því að taka þátt í verkefninu stóðu sænsku lögreglumennirnir tveir fyrir fræðslu á vegum mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar. Er það liður í að auka þekkingu íslenskra lögreglumanna á málaflokknum.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV