Lögregla gerir áhlaup á háskóla - stúdentar kveikja eld

17.11.2019 - 23:43
epa08004090 Pro-democracy protesters protect themselves with umbrellas during clashes with the police outside the Polytechnic University, in Hong Kong, China, 17 November 2019. Hong Kong is in its sixth month of mass protests, which were originally triggered by a now withdrawn extradition bill, and have since turned into a wider pro-democracy movement.  EPA-EFE/FAZRY ISMAIL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Átök lögreglu og mótmælenda í Hong Kong hörðnuðu til muna fyrir skemmstu þegar lögregla freistaði þess að ráðast til inngöngu í Tækniháskóla borgríkisins, sem stúdentar lögðu undir sig í liðinni viku. Brugðu stúdentarnir á það ráð að leggja eld að aðalinngangi háskólans til að hrinda áhlaupi óeirðalögreglunnar. Nýjustu fregnir herma að það hafi tekist, í bili að minnsta kosti.

Samkvæmt AP-fréttastofunni heyrðust og sáust sprengingar inni á háskólasvæðinu. Dagur er risinn þar eystra og hóf lögregla aðgerðir sínar í rauðabítið. Beitti hún hvorutveggja táragasi og háþrýstidælum gegn þeim hundruðum stúdenta sem halda til innan veggja Tækniháskólans og síðar bættust sprengingar af einhverju tagi við.

Lögreglan hótar að grípa til skotvopna

Fyrr í dag hótaði Hong Kong lögreglan að nota raunverulegar byssukúlur, þurfi hún áfram að kljást við mótmælendur með banvæn vopn. Mótmælin hafa staðið í nærri hálft ár en þetta var í fyrsta skipti sem lögreglan sendir frá sér slíka viðvörun. Louis Lau, talskona lögreglunnar sagði að létu mótmælendur ekki af hættulegu framferði sínu, væri lögreglan nauðbeygð til að bregðast við, meðal annars með því að nota alvöru byssukúlur. Þrír mótmælendur hafa verið skotnir í mótmælunum hingað til - en án slíkra viðvarana.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi