Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lögregla elti steypubíl á ofsahraða

11.03.2020 - 09:27
Mynd: Aðsend / Aðsend
Lögregla veitti steypubíl eftirför sem ók á ofsahraða á móti umferð við Sæbraut á tíunda tímanm í morgun. Fjöldi vegfarenda hafði samband við fréttastofu vegna málsins. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiðum var fjöldi lögreglubíla á eftir steypubílnum, sem fór upp á gangstíg til þess að komast leiðar sinnar.

Vitni að atvikinu segja að vegferendur hafi þurft að hlaupa undan bílnum. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á vettvangi hófst eftirförin við Bankastræti. Bílnum var svo ekið eftir Sæbrautinni, á öfugum vegarhelmingi og svo á grasinu nærri sjónum, á meðan lögregla veitti honum eftirför.

Samkvæmt upplýsingum frá Steinsteypunni var ökumaður steypubílsins að aðstoða við stilla upp dælu á byggingarsvæði við Vitastíg þegar maður fór inn í bílinn og tók hann ófrjálsri hendi. 

Engin slys urðu á fólki og ekki skemmdir sem teljandi eru. Maðurinn var handtekinn þegar náðist að stöðva bílinn nálægt Kleppsvegi og var hann færður á lögreglustöð, að sögn í annarlegu ástandi.

Lögregla sendi frá sér tilkynningu nú klukkan 10.05:

Mikil hætta skapaðist á tíunda tímanum í morgun þegar steypubíl var stolið við nýbyggingu á Vitastíg í miðborg Reykjavíkur og honum ekið niður Laugaveg, Bankastræti, um Lækjargötu og eftir Sæbraut uns bifreiðin stöðvaðist nálægt Kleppsvegi þar sem eftirförinni lauk. Lögreglan var með mikinn viðbúnað vegna málsins, en ökumaðurinn, karlmaður um þrítugt, virti öll stöðvunarmerki að vettugi og setti bæði sjálfan sig og aðra vegfarendur í mikla hættu með þessu framferði, en hann ók m.a. á öfugum vegarhelmingi á meðan þessu stóð. Ökumaðurinn var handtekinn á vettvangi og fluttur á lögreglustöð.

Fréttin var uppfærð klukkan 10.55.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV