Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lögregla ekki áður haft afskipti af manninum

13.04.2016 - 17:42
Mynd: RÚV / RÚV
Lögreglan á Akranesi segist ekki vita til þess að lögregla hafi áður haft afskipti af manninum, sem skaut konu sína og svipti sig svo lífi á Akranesi í nótt. Tilkynning barst lögreglu frá vinnuveitanda konunnar og þótti lögreglu ástæða til að kalla til sérsveit ríkislögreglustjóra áður en hún braust inn á heimili hjónanna. Þetta segir Jón Ólason, yfirlögregluþjónn á Akranesi í samtali við fréttastofu.

 

Maðurinn og konan fundust í íbúð sinni í hádeginu í dag. Allt bendir til þess að maðurinn, sem var á sjötugsaldri, hafi skotið konuna til bana og síðan svipt sig lífi. Konan var á sextugsaldri.
 
Jón segir að lögreglan hafi fengið tilkynningu í morgun um að það væri eitthvað óeðlilegt við það að konan hefði ekki mætt í vinnu og ekki náðist samband við hana.  „Við fórum á vettvang til að athuga aðstæður og leist þannig á, meðal annars vegna þess að það voru skráð skotvopn á heimilinu, að við fengum aðstoð frá sérsveitinni hjá ríkislögreglustjóra. Síðan var farið inn og þar komum við að þessum hjónum látnum,“ segir Jón.

 

Ekki sé hægt að fullyrða neitt á þessari stundu hvað það var sem gerðist en svo virðist sem að maðurinn hafi skotið konuna og svo svipt sig sjálfur lífi. Jón segist ekki vita til þess að lögreglan hafi áður haft afskipti af manninum. Rannsókn málsins er á frumstigi og nú þurfi að vinna úr þeim gögnum sem tekin hafa verið saman. 

Konan var starfsmaður í Grundarskóla á Akranesi. Nemendur skólans voru sendir heim klukkan tvö í dag og starfsfólk skólans, sem og foreldrar, upplýst um málið.