Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lögregla drepur nauðgara á Indlandi

06.12.2019 - 16:11
Mynd: EPA-EFE / EPA
Lögreglan á Indlandi skaut í morgun til bana fjóra menn sem nauðguðu og myrtu 27 ára konu í síðustu viku. Illvirkið vakti mikla reiði og hneykslan en fjölskylda og vinir fórnarlambsins fagna nú dauða ódæðismannanna.

Unga konan var dýralæknir og var á leið í vitjun um sexleytið á miðvikudag í síðustu viku. Dekkið á skellinöðru hennar varð loftlaust og vöruflutningabílstjóri kom aðvífandi og bauðst til að hjálpa henni. Hún hringdi í fjölskyldu sína og sagðist tefjast vegna þessa. Það var það síðasta sem fjölskyldan heyrði frá henni. Í ljós kom að fjórmenningarnir höfðu átt við skellinöðruna og hleypt úr dekkjunum. Þeir biðu hennar svo á fáförnum stað, drógu hana inn í kjarrið og nauðguðu henni hrottalega. Síðan kyrktu þeir konuna, drógu hana inn í undirgöng og kveiktu í líkinu. Líkið fannst morguninn eftir og fjórmenningarnir voru handteknir stuttu síðar.

Kröfðust hengingar án dóms og laga

Málið vakti mikla reiði á Indlandi. Mörg þúsund hafa mótmælt á götum úti og almenningur og stjórnmálamenn kröfðust þess að mennirnir yrðu hengdir án dóms og laga. Þetta endurómaði í þinginu. Fyrrum Bollywood-stjarnan Jaya Bachchan sagði á þingfundi að svona menn ætti að hengja opinberlega svo það yrði öðrum víti til varnaðar. Lögreglan var gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi. Þrír lögreglumenn voru leystir frá störfum en þeir höfðu ekkert aðhafst í tvo tíma, sögðu fjölskyldunni að stúlkan hefði örugglega hlaupist á brott með elskhuga sínum.

Skrumskæling á réttarkerfinu

Lögreglan fór í morgun með fjórmenningana á vettvang glæpsins til að sviðsetja atburðarásina. Prakash Reddy aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að klukkan hálfsjö í morgun hafi fjórmenningar ráðist að lögreglu og reynt að hrifsa af þeim vopn. Komið hafi til skotbardaga og fjórmenningarnir allir verið skotnir til bana. Tveir lögreglumenn hafi særst í átökunum. Þessi útgáfa stangast reyndar á við fyrri útgáfu lögreglu. Þá átti atvikið að hafa gerst þremur klukkutímum fyrr og þá voru fjórmenningarnir skotnir á flótta. Þótt margir fagni þessum málalyktum eru aðrir sem segja þetta skrumskælingu á réttarkerfinu, aftöku án dóms og laga.

Sálin fær verðskuldaðan frið 

Fjölskylda fórnarlambsins hefur tekið þessum málalyktum fagnandi. Faðir hennar þakkar lögreglu og yfirvöldum fyrir að gerningsmennirnir hafi fengið makleg málagjöld. Dóttirin hafi verið látin í tíu daga en nú fái sál hennar verðskuldaðan frið. Móðir hennar segist bæði glöð og sorgmædd. Dóttirin komi aldrei aftur en nú fái hún sálarró. Hún hafi ekki búist við réttlæti en réttlætinu hafi nú verið fullnægt. Systir fórnarlambsins tekur í sama streng. Aðgerðir lögreglu fæli menn frá illskuverkum sem þessum.

Flugeldar, fögnuður og veitingar

Kvenréttindasamtök Indlands segja hins vegar að ekkert réttlæti felist í því að lögregla skjóti ódæðismennina. Konur séu ekki öruggar á götum úti, lögreglan rannsaki sjaldnast mál sem þessi og það leiði nánast aldrei til sakfellingar. Í siðuðu samfélagi eigi landsmenn að njóta verndar og öryggis og geta treyst því að lögregla og dómskerfið virki. Aðrir fagna niðurstöðunni og segja þetta gott dæmi um að réttlætinu sé fullnægt á skilvirkan hátt. Tvö þúsund nágrannar hafa fagnað í allan dag, skotið upp flugeldum og boðið gestum og gangandi upp á veitingar. Aðgerðum lögreglu hefur verið fagnað. Réttlætið sigrað.

Fagnar aðgerðum lögreglu

Asha Devi, móðir stúlkunnar sem var nauðgað af hópi karlmanna í strætó í höfðuborginni Delhi, árið 2012 fagnar þessari niðurstöðu. Hún segir að lögreglan hafi gert vel í að drepa fjórmenningana og krefst að lögreglumennirnir verði ekki sóttir til saka fyrir að skjóta mennina í morgun. Lögreglan hafi gert hið eina rétta.

Nauðgað hrottalega af sex karlmönnum

Mál dóttur hennar vakti gríðarlega athygli á sínum tíma. Hún var úr fátækri fjölskyldu en hafði brotist til mennta og nýlokið læknisnámi. Hún fór í kvikmyndahús með vini sínum að sjá myndina, The Life of Pi. Þau voru á heimleið um áttaleytið, stukku upp í strætó sem var reyndar formlega hættur að ganga. Þar var henni nauðgað hrottalega af fimm karlmönnum og einum unglingspilti og síðan kastað út úr vagninum. Hún lést þrettán dögum síðar. Sexmenningarnir sem nauðguðu henni sýndu enga eftirsjá, þeir voru bara úti að skemmta sér. Fórnarlambið ætti í raun meiri sök á naugðuninni en gerningsmennirnir. Siðprúð stúlka eigi ekki að þvælast um að kvöldi til og stúlkur beri meiri ábyrgð á nauðgunum en strákar.

Nauðgun kærð á fimmtán mínútna fresti

Heimildarmyndin Dætur Indlands um nauðgunina og nauðganir almennt í Indlandi var frumsýnd árið 2015 og vakti mikla athygli. Á Indlandi búa tólf hundruð milljónir manna. Árið 2017 voru þrjátíu og þrjú þúsund, sex hundruð fimmtíu og átta nauðganir tilkynntar til lögreglu. Að meðaltali eru það nítíu og tvær nauðganir á dag eða ein á fimmtán mínútna fresti. Það eru einungis kærðar nauðganir. Nauðganir, kynferðisofbeldi, sýruárásir, morð, heimilisofbeldi, kúgun, umskurður og mansal er alheimsvandamál. Konur njóta víða lagalegra réttinda en heimildarmyndin Dætur Indlands sýnir glöggt hve djúpstætt það er í indversku samfélagi að halda konum í myrkviðum fortíðar.

 

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV