
Lögregla annast eftirlit með náttúrupassa
Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra ferðamála greindi frá því í Kastljósi á miðvikudag að byrjað verði að selja Íslendingum og ferðamönnum náttúrupassa upp úr næstu áramótum, náist víðtæk sátt um fyrirkomulagið. Drögum að frumvarpi um náttúrupassasjóð, eru nú til umsagnar hjá ýmsum hagsmunahópum. Í þeim kemur fram að passinn eigi að gilda á þeim ferðamannastöðum sem vilji taka þátt í verkefninu.
Fjögurra daga passi kosti 2.000 krónur, mánaðarpassi 3.000 krónur og fimm ára passi 5.000 krónur. Gert er ráð fyrir að í upphafi kaupi ferðamenn passann á netinu og geti prentað út kvittun. Engin frekari útfærsla er á sölukerfi og markaðssetningu passans.
Í frumvarpsdrögunum, sem munu væntanlega taka einhverjum breytingum, er gert ráð fyrir að úthlutað verði úr Náttúrupassasjóði í það minnsta á hverju vori. Að frádregnum rekstrarkostnaði eigi 95% af sölu passans að renna til uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða samkvæmt framkvæmdaáætlun.