Athugið þessi frétt er meira en 13 ára gömul.

Lögmaðurinn skammar Jenis av Rana

07.09.2010 - 09:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Kaj Leo Johannesen, lögmaður Færeyja, segir Jenis av Rana, formanni kristilega Miðflokksins, að skammast sín fyrir ummælin sín um Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Jenis av Rana sagðist í viðtali við vefmiðilinn Vogaportalinn í gær ekki ætla að sitja kvöldverðarboð með Jóhönnu og eiginkonu hennar. Jóhanna er í opinberri heimsókn í Færeyjum.

Jenis og flokksmenn hans hafa barist gegn réttindum samkynhneigðra í Færeyjum. Jenis av Rana sagði viðtalinu í gær að heimsókn Jóhönnu væri hrein ögrun og ekki í samræmi við boðskap Biblíunnar. Hann sagði að sér dytti ekki í hug að sitja veisluna.

Johannesen sagði í viðtali við færeyska ríkisútvarpið í morgun Íslendingar væru alltaf hjartanlega velkomnir til Færeyja rétt eins og Færeyingar til Íslands. Mjög lítill hluti þjóðarinnar væri sömu skoðunar og Jenis av Rana.