Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Lögmaður fjölskyldunnar hvatti þau til að kæra

13.12.2015 - 21:35
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Arndís A. K. Gunnarsdóttir, lögmaður albönsku fjölskyldunnar sem var flutt úr landi í síðustu viku, segir að hún hafi hvatt þau til að kæra úrskurð Útlendingastofnunar.

Kastriot Pepaj, faðir langveiks drengs í fjölskyldunni, segir að lögmaður fjölskyldunnar hafi ráðlagt þeim að hætta við að kæra synjun um hæli þar sem litlar eða engar líkar væru á jákvæðri niðurstöðu. Hann segir að lyf við slímseigjusjúkdómi sem sonur hans þjáist af séu ekki fáanleg í Albaníu. Þetta kom fram í fréttum sjónvarps í kvöld. 

Arndís segir þó að hún standi með sínum umbjóðendum og vilji ekki standa í orðaskaki við þau í fjölmiðlum.

Fjölskyldan var flutt úr landi í síðustu viku en þau höfðu sótt um hæli hér á landi. Fjölskyldunni var synjað um hæli hér á landi og kærði hún úrskurðinn, en dró kæruna til baka áður en úrskurðanefnd lauk skoðun sinni á málinu.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður