Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Löggur boða forföll á höfuðborgarsvæðinu

16.10.2015 - 08:06
Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason - RÚV
Lögreglumenn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa boðað forföll vegna veikinda í morgun. Þetta kom fram á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu skömmu fyrir klukkan átta í morgun.

Lögreglan segir að af þeirri ástæðu sé viðbúið að ekki verði unnt að sinna öllum verkefnum sem koma á borð lögreglu í dag.  Þau sem teljast brýn og áríðandi verða þó vitaskuld sett í forgang eins og jafnan áður.

Sú staða kom upp hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í morgun að margir lögreglumenn hjá embættinu boðuðu forföll vegna...

Posted by Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu on 16. október 2015

Á Ísafirði höfðu nokkrir lögreglumenn tilkynnt veikindi og sömu sögu er að segja á Suðurnesjum. Þar höfðu sjö af níu mönnum á dagvakt boðað forföll. Ekkert var um forföll í Vestmannaeyjum. Á Akureyri var ekki ljóst hversu margir myndu mæta til vinnu.

Samningafundur í kjaradeilu ríkisins annars vegar og sjúkraliða, lögreglumanna og félagsfólks í SFR stéttarfélags í almannþágu hefst hjá ríkissáttasemjara klukkan hálf ellefu.

Lögreglumenn gengu fylktu liði á Austurvöll í gær til að sýna samstöðu með kjarabaráttu SFR og Sjúkraliðafélagi Íslands. Þeir fjölmenntu einnig á þingpalla þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru spurður að því hvernig þeir ætluðu að bregðast við aðgerðum lögreglumanna.

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, sagði til að mynda að það væri sín skoðun að starf lögreglumanna væri með þeim hætti að betra væri að hagur þeirra væri tryggður með samningum en að þeir fengju aftur verkfallsrétt. „Ég held að það sé alveg vafalaust að ef menn hafa ekki verkfallsréttinn þarf að mæta því í kjarasamningum. Ég held að afar brýnt sé að það verði gert.“

Þetta er í annað sinn sem lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu boða forföll vegna veikinda. Hugsanlegt er að þetta setji strik í reikninginn þegar Hollande Frakklandsforseti kemur til landsins nú síðdegis - svokölluð lífvarðargæsla sérsveitarmanna mun vera tryggð en umferðastýring kann að verða með öðrum hætti en tíðkast hefur í heimsóknum stórmenna, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV