Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Löggublað notar Sigmund sem dæmi um lygara

20.06.2016 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Skopmynd af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, er á síðu tvö í nýjustu útgáfu Lögreglumannsins, tímariti Landssambands lögreglumanna, sem kom út nýverið. Efst á myndinni má lesa textann: „Nokkur atriði sem lögreglumenn hafa í huga við yfirheyrslu á manneskju sem segir ekki satt og rétt frá!"

Á myndinni eru taldar upp nokkrar vísbendingar, um hvernig lögreglumenn geta greint ósannsögli þeirra sem sæta yfirheyrslu. 

Smelltu á myndina til að stækka.

Myndin, sem skopmyndateiknarinn Logi Jes Kristjánsson teiknaði, er augljós tilvísun í frægt Kastljósviðtal sem tekið var við Sigmund Davíð, þáverandi forsætisráðherra, í tengslum við birtingu Panama-skjalanna svokölluðu, þann 3. apríl síðastliðinn. Þar var Sigmundur Davíð spurður út í tengsl sín við aflandsfélagið Wintris.

Sven Bergman, fréttamaður sænska fréttaskýringaþáttarins Uppdrag Granskning, og Jóhannes Kr. Kristjánsson, blaðamaður Reykjavík Media, tóku viðtalið í ráðherrabústaðnum sem lauk með því að Sigmundur Davíð gekk út í miðju viðtali. 

Ekki náðist í Snorra Magnússon, formann Landssambands lögreglumanna, sem jafnframt ritstýrir tímariti sambandsins, við vinnslu fréttarinnar.

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV