Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Löggjöf um velgjörðarstaðgöngu ekki lausn

10.02.2015 - 22:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Löggjöf sem leyfir staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni leysir ekki þann vanda sem komið hefur upp segir prófessor í mannfræði. Eftir að lögin voru sett í Bretlandi og Ástralíu fjölgaði þeim sem sóttu þessa þjónustu til Indlands og Bandaríkjanna.

Jónína Einarsdóttir, prófessor í mannfræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands skrifaði grein um staðgöngumæðrun ásamt Helgu Finnsdóttur í tímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla. Þar lýstu þær rannsókn á hugmyndum fólks um staðgöngumæðrun hér á landi. 

Lögin gætu aukið ásókn í staðgöngumæðrun erlendis

Frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verður lagt fram á Alþingi á næstu vikum. Jónína segir dæmi um að þeir sem því eru fylgjandi, líti á lögleiðinguna sem leið til að koma í veg fyrir kúgun kvenna í fátækum ríkjum. Sett hafa verið lög um staðgöngumæðrun í velgjörðarrskyni í Bretlandi og Ástralíu. „Það sýnir sig að í þessum ríkjum, Bretlandi og Ástralíu, þá eru vísbendingar um það að ásókn í erlendar staðgöngumæður hafi aukist við lagasetninguna vegna þess að lögin eru takmarkandi, og þegar til kastanna kemur þá er engin fórnfús kona í nágrenninu - það er engin systir eða vinkona sem vill taka það að sér,“ segir Jónína. „Og þá verður einfaldara að fara erlendis og kaupa þjónustun staðgöngumóður þar og koma heim.“

Með því að lögleiða staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sé búið að lögleiða þessa leið í hugum fólks. „Ég held að þau lög sem nú séu í bígerð séu ekki svar við vandanum, að það sé leitað staðgöngumæðra erlendis, þau gætu aukið þá ásókn og þau eru þá heldur ekki svar við vegabréfalausum börnum,“ segir Jónína.

Þarf frekari rannsóknir

„Það er ein af okkar meginniðurstöðum í raun og veru að það þurfi rannsóknir og að við vitum ekki nóg, og í skjóli þess má kannski deila um það af hverju  liggi svona á að setja lög.“