Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lögðu í hann rétt fyrir lokun og eru nú í vanda

19.02.2020 - 16:14
Myndir frá Landsbjörg af björgunaraðgerðum í óveðrinu í desember.
Mynd úr safni. Mynd: Slysavarnafélagið Landsbjörg
Vonskuveður er skollið á á suður- og suðausturlandi og þjóðveginum frá Steinum að Vík og frá Gígjukvísl að Jökulsárlóni hefur verið lokað. Björgunarsveitir standa í ströngu þar sem margir vegfarendur á illa búnum bílum komust inn á þennan hluta vegarins áður en honum var lokað.

Appelsínugular viðvaranir taka gildi nú síðdegis á Suður- og Suðausturlandi og samkvæmt veðurspánni geta vindhviður farið í allt að fjörutíu metra á sekúndu. Guðmundur Kristján Ragnarsson, flokksstjóri hjá Vegagerðinni í Vík, segir að það sé slydduhríð, mikill vindur og hálir vegir. Mikið af bílum var á veginum þegar honum var lokað. Rútur eru fastar og er björgunarsveitin Víkverji nú að draga eina upp sem lenti utan vegar. 

Á veginum eru fastir fólksbílar og líka stærri illa búnir bílar, að sögn Guðmundar Kristjáns. „Þetta eru jepplingar og annað sem ekki eru á nöglum og komast ekkert áfram,“ segir hann.

Björgunarsveitin Víkverji stendur í ströngu við að aðstoða fólkið í bílunum. Sveitin fer um og kannar hvort fólk sé í bílunum og reynir að koma því til Víkur eða í nærliggjandi gistingu.