Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lög um helgidaga barn síns tíma

26.12.2015 - 13:34
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Formaður VR segir lög um helgidagafrið vera barn síns tíma og vill að þeim verði breytt. Henni finnst að atvinnurekendur eigi að fá að ráða því sjálfir hvort þeir hafi opið á hátíðisdögum, og þá í samráði við starfsmenn sína með kjarasamningsbundin réttindi þeirra að leiðarljósi.

Lögum um helgidagafrið er ætlað að vernda helgihald og tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar. Samkvæmt þeim er óheimilt að trufla guðsþjónustu, kirkjuathöfn eða annað helgihald með hávaða eða öðru því sem andstætt er helgi viðkomandi athafnar. Í lögunum er lagt blátt bann við skemmtunum, svo sem dansleikjum og einkasamkvæmum á veitingastöðum eða öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að, og hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram.

Þá er öll verslunarstarfsemi óheimil, sem og önnur viðskiptastarfsemi. Á jóladag er hins vegar starfsemi lyfjabúða, bifreiðastöðva, gisti- og veitingastaða undanþegin. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir lögin um helgidagafrið vera barn síns tíma.

„Þið sjáið nú bara þessi straumur ferðamanna og fyrir svona tíu árum síðan þá þekktist þetta ekki. En við verðum jú að geta tekið á móti fólkinu sem er að koma til okkar og svo eru líka Íslendingar sem eru kannski einir um jólin og þurfa þá að fá einhverja aðstoð annars staðar, versla sér eða þá finna sér stað til að fá sér að borða.“

Ólafíu finnst að atvinnurekendur eigi sjálfir að fá að ráða því hvort þeir hafi opið á hátíðardögum, og þá í samráði við starfsmenn sína og með hliðsjón af hvíldartíma og álagsgreiðslum í samræmi við kjarasamninga. Töluverður misbrestur er á því að atvinnurekendur virði áðurnefnd kjarasamningsbundin réttindi starfsmanna sinna yfir hátíðirnar.

„Við höfum verið að vekja athygli á þessu varðandi hvíldartímann og líka álagsgreiðslurnar. Það er nú bara herferð í gangi hjá okkur núna í auglýsingum, þar sem við hvetjum félagsmenn okkar og atvinnurekendur líka að virða þennan hvíldartíma og líka að fólkið fái álagsgreiðslurnar greiddar.“

Hún segir að einhver misbrestur sé á þessu: „En þá hvetjum við félagsmenn okkar til að koma og við reiknum það út og fylgjum því þá eftir.“

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV