Lög til að syngja, raula eða öskra við handþvottinn

Mynd: EPA / EPA

Lög til að syngja, raula eða öskra við handþvottinn

17.03.2020 - 14:32

Höfundar

Benedikt Karl Gröndal, leikari í Neskaupstað og blaðamaður Austurfréttar, hefur tekið saman lista yfir austfirsk lög sem hægt er að syngja til að tryggja árangursríkan handþvott.

Flest okkar kannast orðið vel við 20 sekúndna regluna svokölluðu, þar sem fólki er ráðlagt að skola hendurnar og nudda með sápu undir volgu vatni í um 20 sekúndur til að gera út af við sýkla og koma í veg fyrir frekari smit.

Stungið hefur verið upp á ýmsum lagstúfum sem nær allir þekkja og hægt er að fara með til að tryggja að handþvottur vari nógu lengi til að hann skili tilætluðum árangri, til dæmis afmælissönginn. Benedikt Karli Gröndal leist illa á að syngja þann söng til lengdar og réðst í það að finna önnur lög sem kæmu til greina.

„Þá fór ég að pæla að það er fullt af austfirskum tónlistarmönnum og tónlistarfólki á Íslandi sem er ættað héðan og fór að hugsa með mér hvaða austfirsku lög er hægt að söngla,“ segir Benedikt í viðtali í Mannlega þættinum á Rás 1. „Ég segi það nú í fréttinni [á vef Austurfréttar]: að raula, syngja eða öskra. Það eru þungarokkslög þarna. Mér fannst fyndið að sjá einhvern fyrir sér við vaskinn að öskra eitthvað þungarokkslag.“

Lagalistinn er fjölbreyttur og það þarf ekki að vera að austan til að geta nýtt sér hann. Hér eru nokkur dæmi en listann í heild má finna á vef Austurfrétta:

  • Símon er lasinn - SúEllen (Það hlýtur einhver Símon að vera með COVID. Sendum honum góða strauma og matarkörfur).
  • Arnþrúður er full - Austurvígstöðvarnar (Sumir kjósa nota sprittið öðruvísi en á hendurnar. Við mælum alls ekki með því).
  • Heim - Magni Ásgeirsson (Á sérstaklega við ef þú ert heima í sóttkví). 
  • Líf ertu að grínast - Prins Póló (Tileinkað þeim sem eru smitaðir og nýbúnir að losa sig við inflúensuna).
  • Fljúgum áfram - Skítamórall (Gott að vera jákvæður, það þýðir ekkert annað).

Tengdar fréttir

Tónlist

Listamenn og stofnanir bregðast við samkomubanni