Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lög sett á aðgerðir flugumferðarstjóra

08.06.2016 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kastljós
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum fyrir hádegi að gefa viðsemjendum í kjaradeilu flugumferðarstjóra og ISAVIA frest til 24. júní til að ná samningum. Takist það ekki verður skipaður gerðardómur til að úrskurða um laun flugumferðarstjóra. Frumvarpið felur einnig í sér að flugumferðarstjórar hætti aðgerðum sínum, yfirvinnu- og þjálfunarbanni, strax en Alþingi verður kallað saman innan skamms.

Ólöf Nordal sagði í samtali við fréttastofu að of langt beri á milli í deilunni og um neyðarúrræði sé að ræða. Hún ræður nú við fulltrúa stjórnarandstöðunnar um að kalla Alþingi saman til að afgreiða þetta frumvarp. „Við getum ekki látið hjá líða að beita þessu úrræði til að fá fólk til að setjast niður. Stjórnvöld vilja ekki grípa til aðgerða að þessu tagi og við sjáum að staðan er það alvarlega að það sé skylda stjórnvalda að grípa inn í.“

Kjaradeila flugumferðarstjóra hefur verið í hnút um nokkurt skeið. Flugumferðarstjórar hafa verið í yfirvinnu- og þjálfunarbanni sem hefur raskað flugsamgöngum nokkuð, bæði innanlands- og millilandaflugi. Yfirvinnubann hefur staðið yfir í tvo mánuði og ollið seinkun um 1200 flugferða og bitnað á um 200 þúsund farþegum.

Flugumferðarstjórar hafa farið fram á að laun verði fyrst leiðrétt þar sem stéttin hafi setið eftir og að því loknu verði samið á grunni SALEK-samkomulagsins. Samtök atvinnulífsins hafa sagt að það þýði 60% hækkun launa.

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV
hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV