Lög með meira en milljón spilanir

Mynd: David44 / Facebook

Lög með meira en milljón spilanir

20.07.2018 - 11:33
Það þekkja kannski ekki margir til tónlistarmannsins Davíðs Ólafssonar sem kallar sig David44. Hann hefur þó öðlast talsverðar vinsældir erlendis og öll lögin hans eru með meira en milljón spilanir á Spotify.

Davíð er fæddur á Íslandi en fluttist átta ára til Danmerkur þar sem hann hefur að mestu leyti búið síðan. Ísland hefur þó alltaf togað svolítið í hann og íslensk tónlist heillað hann.

Hann skrifaði undir samning við Sony í Kaupmannahöfn fyrir tveimur árum og hefur aðallega unnið í Danmörku. „Svo fékk ég bara mikla heimþrá.“ Frelsið til að semja tónlist er að sögn Davíðs ekki jafn mikið í Danmörku og hér og þar þarf að gera það sem plötufyrirtækin segja manni að gera. „Íslensk tónlist er bara meira spennandi en dönsk,“ bætir hann við.  

Fyrsta lagið gaf Davíð út lag 2016 og var það spilað á útvarpsstöðvum í 31 landi. Hann gaf svo út tvö lög í viðbót sem fengu svipaðar viðtökur. Mánaðarlega hlusta yfir 300 þúsund manns á hann á Spotify, sem verður að teljast nokkuð gott. Hlustendurnir eru um allan heim, í Danmörku, á Spáni og í Indónesíu svo dæmi séu tekin.

Núna er Davíð á fullu að semja fyrir fyrstu plötuna sína sem er á leiðinni. Plötuna vinnur hann að hluta til með Þormóði Eiríkssyni sem hefur til að mynda pródúserað lög á borð við B.O.B.A fyrir JóaPé og Króla.

Davíð og Þormóður voru gestir í Núllinu og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.