Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Loftslagsráðstefnan hafin í Madrid

02.12.2019 - 12:03
epa08039019 UN Secretary-General Antonio Guterres delivers a speech during the opening ceremony of the COP25 Climate Summit held in Madrid, Spain, 02 December 2019. The UN Climate Change Conference COP25 runs from 02 to 13 December 2019 in the Spanish capital.  EPA-EFE/EMILIO NARANJO
Guterres ávarpar þátttakendur á loftslagsráðstefnunni í Madrid í morgun. Mynd: EPA-EFE - EFE
Þjóðir heims verða að sýna samtöðu og sveigjanleika í baráttunni við loftslagsvána. Þetta sagði Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, við setningu loftslagsráðstefnu samtakanna í Madrid á Spáni í morgun. Heimsbyggðin stæði á krossgötum í viðleitninni við að bregðast við hættulegri hlýnun andrúmsloftsins.

Guterres gaf tóninn strax í gær og sagði þá á fundi með fréttamönnum að vendipunkturinn, þegar ekki yrði hægt að snúa þróuninni við, væri ekki lengur handan sjóndeildarhringsins.

Hann sagði í morgun að við lok komandi áratugar myndi blasa við önnur af tveimur mögulegum leiðum sem heimsbyggðin stæði frammi fyrir. 

Guterres sagði að annars vegar væri leið uppgjafar þar sem mannkyn ræki sofandi að feigðarósi og stofnaði þannig í hættu heilsu og öryggi allra jarðarbúa. 

Hins vegar væri leið vonar, einbeitni, sjálfbærra lausna og kolefnisjöfnunar. Leið sem miðaði að því að halda jarðefnaeldseyti þar sem það ætti að vera, ofan í jörðinni.

Það væri eina leiðin til að koma í veg fyrir að hitinn hækkaði um meira en eina og hálfa gráðu á þessari öld. Gögn frá loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna sýndu að allt umfram það myndi hafa hörmulegar afleiðingar.

 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV