Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Loftslagsbreytingar auka kraft hitabylgja

28.06.2019 - 14:44
epa07677673 A tourist refreshes himself at a fountain in Los Naranjos courtyard of the Mosque-Cathedral of Cordoba, Spain, 27 June 2019. A heatwave is affecting most parts of the Peninsula.  EPA-EFE/SALAS
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Mikil hitabylgja gengur nú yfir stóran hluta Evrópu. Hitamet féll í Frakklandi fyrr í dag þegar hitinn fór yfir 45 stig og tilkynnt hefur verið um nokkur dauðsföll. Nokkrar ástæður eru fyrir því að hitabylgjan er jafn mikil og raun ber vitni, meðal annars loftslagsbreytingar.

Hitabylgjur eru ekki nýjar af nálinni en veðursérfræðingar segja að hækkandi hitastig vegna loftslagsbreytingar geri það að verkum að hiti magnast og hitabylgjur verði tíðari.

Heitt loft berst yfir álfuna frá Norður-Afríku. Sérfræðingar sem breska ríkisútvarpið BBC ræddi við segja nokkrar ástæður fyrir krafti hitabylgjunnar nú.

Hár loftþrýstingur veldur því að heitt loft frá Sahara-eyðimörkinni berst til norðurs sem hækkar lofthita og eykur raka.

Lítil skýjahula gerir það að verkum að ekkert hindrar sólargeisla sem enn eykur á hitann. Jarðvegur er afar þurr víða í álfunni vegna þurrkatíðar undanfarið en uppgufun vatns dregur úr hita jarðvegs.

Nokkrir hafa látist vegna hitabylgjunnar, þar af tveir á Spáni og í norðausturhluta landsins geisa miklir skógareldar, skyndiflóð hafa orðið í nokkrum löndum, flugi hefur verið frestað sem og lestarferðum. Skólum hefur verið lokað víða og loftmengun aukist.

Í Þýskalandi hefur fólk gripið til þess ráðs að fylla vatnsflöskur, setja þær í frystinn og sofa með þær. Frakkar hafa sett tímabundið upp gosbrunna í borgum og bæjum og leyft lengri opnun sundlauga.