Loftmengun dregur úr greind

28.08.2018 - 07:31
epa06507772 Morning haze envelopes central Bangkok, Thailand, 09 February 2018. Thailand's Pollution Control Department (PCD) and the environmental organisation Greenpeace issued a health warning on 08 February 2018, stating that the air pollution
Mengunarský hefur vikum saman legið yfir Bangkok. Mynd: EPA-EFE - EPA
Loftmengun getur dregið verulega úr greind fólks, samkvæmt nýrri rannsókn sem birtist í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Níutíu og fimm prósent heimsbyggðarinnar andar að sér skaðlegu lofti.

Rannsóknin leiðir í ljós að mikil loftmengun hefur slæm áhrif á tungumála- og stærðfræðikunnáttu fólks. Breska blaðið The Guardian hefur eftir rannsakendum að neikvæð áhrif loftmengunar á greind eykst eftir því sem fólk verður eldra. Karlmenn sem hafa ekki sótt sér menntun eru líklegastir til að verða fyrir vitsmunalegum áhrifum vegna mengunar. Þá eykur mengun líkur á hrörnunarsjúkdómum eins og alzheimer, samkvæmt könnuninni.

Loftmengun banar sjö milljónum á ári

Tuttugu þúsund kínverjar tóku þátt í rannsókninni sem tók fjögur ár. Rannsakendur lögðu staðlaðar spurningar fyrir fólk 10 ára og eldri sem sneru að stærðfræði og orðaforða. Svörin voru metin í tengslum við gildi mengunar þar sem fólkið bjó.

Þetta er fyrsta sinn sem áhrif loftmengunar á greind beggja kynja á öllum aldri er rannsökuð, að því er fram kemur í Guardian. Loftmengun er talin bana um sjö milljón manns á ári. Alþjóðaheilbrigðsimálastofnunin, WHO, skilgreindi loftmengun sem eitt helsta umhverfisvandamál nútímans fyrr á þessu ári.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi